Endurskoðun jarðalaga

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:05:29 (7598)

2002-04-17 12:05:29# 127. lþ. 119.8 fundur 561. mál: #A endurskoðun jarðalaga# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:05]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Samfylkingarinnar fyrir málefnalega umræðu og hef í sjálfu sér ekkert við hana að athuga en vil þó minna hv. þm. á að jarðamál eru einhver flóknustu mál sem upp koma og á margan hátt erfið. Auðvitað eiga lögin ekki að hygla neinum en þó er það svo í mörgum löndum. Landbúnaðarhagsmunir hafa ákveðinn rétt hér sem annars staðar og ég þekki auðvitað mörg deiluefni um uppskipti jarða. Því miður bera auðvitað fjölskyldurnar sína ábyrgð á því hvernig það hefur þróast. Stundum er allt of seint farið í uppskiptin og ég þekki margar jarðir sem mann fram af manni eru setnar kynslóð fram af kynslóð án þess að uppskipti hafi átt sér stað og eigendurnir verða margir og sjónarmiðin ólík þannig að þetta er mikið harmsefni hvernig þetta hefur þróast og það þarf auðvitað að hvetja einstaklingana líka til þess sjálfa að leysa mál sín. Þeir eru með eldsmat í höndunum sem getur sundrað heilu fjölskyldunum eins og svo mörg dæmi eru um.

Ég tek auðvitað undir með hv. þm. að lögin þurfa að vera skýr og þau þurfa að geta tekið á í þessum efnum og skorið úr. En enginn getur skotið sér undan ábyrgð. Ég finn það núna sérstaklega að með hækkuðu verði á landi eins og hér hefur þróast mjög á síðustu árum er þetta líka erfiðara fyrir þá einstaklinga og fjölskyldur sem eru að taka við búinu að fá það á því verði sem það getur ráðið við og framfleytt fjölskyldu sinni og setið jörðina með sóma. Þar er því eitt verkefnið líka. Þau eru mörg verkefnin sem snúa að jarðamálum og ég vil lýsa því yfir vegna umræðna að ég tel mig ekki í vondum málum, eins og hv. samfylkingarmaður Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir sagði, í jarðamálum heldur miklu fremur ágætum málum og vil vinna að því með þinginu að þau frv. verði að lögum á næsta þingi.