Aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:19:09 (7603)

2002-04-17 12:19:09# 127. lþ. 119.9 fundur 518. mál: #A aðgerðir í skattamálum til styrktar landsbyggðinni# fsp. (til munnl.) frá fjmrh., SJS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:19]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég sat í þeirri nefnd þingflokka sem skipuð var í tengslum við breytingar á kjördæmaskipan og stjórnarskrá sem gerði tillögur til ríkisstjórnar og Alþingis um aðgerðir í byggðamálum í tengslum við þessar kjördæmabreytingar. Eins og hér hefur réttilega verið bent á var í þeim tillögum hreyft hugmyndum um skattalegar aðgerðir og jafnvel að menn þreifuðu sig áfram með það hvort hægt væri að beita skattalegum úrræðum í þessum efnum.

Í því starfi komu aldrei upp efasemdir um að það væri ekki hægt vegna einhverra jafnræðisákvæða stjórnarskrár og ég minni á að í Noregi er þessum tækjum beitt í allverulegum mæli þar sem skattar, a.m.k. á fyrirtæki og ég held líka einstaklinga, eru nokkuð breytilegir eftir landsvæðum. Norska byggðaprógrammið eins og það leggur sig hefur fengið viðurkenningu Evrópusambandsins vegna þess að Noregur er aðili að INTERREG-byggðaáætlun Evrópusambandsins þannig að það væru þá einhverjar algerlega séríslenskar ástæður sem yllu því að ekki væri hægt að beita slíkum úrræðum.