Verðlagsmál

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:36:25 (7607)

2002-04-17 12:36:25# 127. lþ. 119.95 fundur 508#B verðlagsmál# (umræður utan dagskrár), forsrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:36]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Hv. þm. Vilhjálmur Egilsson ræddi um þróun efnahagsmála á undanförnum mánuðum og missirum. Það er ljóst að sú þróun hefur ekki verið með öllu átakalaus. Í kjölfar hagvaxtarskeiðs og uppgangs í íslensku efnahagslífi kom tímabil nokkurrar þenslu. Ríkisstjórnin ásamt aðilum vinnumarkaðarins lagði á það mikla áherslu að koma í veg fyrir að verðbólgan næði að grafa um sig í hagkerfinu með afleiðingum sem öllum Íslendingum eru því miður allt of vel kunnar. Allt bendir nú til þess, eins og hv. þm. nefndi, að góður árangur muni nást við stjórnun efnahagsmála og að þær aðgerðir sem ríkisstjórnin og aðilar vinnumarkaðarins hafa gripið til hafi verið réttar og tímabærar og hafi reynst árangursríkar.

Nýjasta verðlagsmæling Hagstofunnar sýnir svo ekki verður um villst að böndum hefur verið komið á verðbólguna og allar líkur benda til þess að rauðu strikin svokölluðu haldi. Þar með hefur verið tryggður friður á vinnumarkaði og um leið forsenda þess að verðbólga verði áfram lág hér á landi öllum landsmönnum til hagsbóta.

Þetta tímabil hefur verið merkilegt fyrir margra hluta sakir. Það hefur út af fyrir sig verið nokkur prófsteinn á menn. Eins og við mátti búast hefur gefið á bátinn og því er ekki að neita að stundum hafa sumir af þeim sökum misst algjörlega sólarsýn. Þeir hafa ekki þótt efni í góða skipstjóra sem ætíð hafa haldið við minnsta goluþyt að nú sé hin hinsta stund upp runnin, skútan hljóti að sökkva. Lýsandi dæmi um þetta var umræðan um viðskiptahallann, og er fróðlegt að rifja hana upp. Sá sem hér stendur var og er þeirrar skoðunar að viðskiptahallinn, þótt mikill hafi verið um tíma, hafi verið langt frá því að vera óviðráðanlegt vandamál. Ég mátti sitja undir miklum glósum hér, á þinginu, vegna þessarar skoðunar minnar og miklum stóryrðum mikilla spekinga í þingsalnum.

Viðskiptahallinn var til kominn vegna fjárfestinga og neyslu einstaklinga en ekki ríkisvaldsins. Það var eðlismunurinn sem ég lagði ætíð áherslu á. Því sagði ég að þegar draga þyrfti saman seglin mundu þessir aðilar gera það og viðskiptahallinn mundi minnka hratt og örugglega. Efnahagsstofnanir og ýmsir þingmenn hér töldu sig ekki geta trúað þessum niðurstöðum. Viðskiptahallinn reyndist ekki vera sú tifandi tímasprengja sem springa átti framan í þjóðina með rosalegum gauragangi og hrikalegum afleiðingum. Reyndar virtist þessi tímasprengja vera eitthvert mesta sigurverk sem sögur fara af. Hún virtist ekki bara geta sprungið einu sinni heldur aftur og aftur, þessi sama sprengja, með sama hætti og aðrar púðurkerlingar. En það sýndi sig að viðskiptahallinn dróst saman hratt og örugglega og fór nákvæmlega eins og stjórnarliðar höfðu spáð í þessum sal. Sprengjan mikla sprakk sem sagt hvergi nema í hugarheimi sprengjusmiðsins og þar sannaðist kannski það sem lektor einn við háskólann sagði, að eina sprengjan sem tifaði væri sú hætta sem þjóðinni væri búin af því að búið væri að sameina allt vitlausasta fólkið í landinu í efnahagsmálum í einn flokk. Það var fræg setning eins og menn muna.

Ég vil nefna vantrú hv. formanns Samfylkingarinnar, Össurar Skarphéðinssonar. Fyrir þremur mánuðum sagði þessi hv. þm. hér í salnum:

,,Miðað við þær hækkanir sem yfirleitt verða á verðlagi á þessum tíma árs bendir ekkert til þess að við verðum undir þessum rauðu strikum. Hver segir það? Ekki bara formaður Samfylkingarinnar heldur segir forstjóri Þjóðhagsstofnunar að ...`` --- Reyndist þetta rétt? Heldur betur ekki. Það bendir allt til þess að þetta muni allt saman ganga fram. Á sama þingfundi sagði sami hv. þm.:

,,Var það ekki örugglega fyrir síðustu jól, herra forseti, sem ríkisstjórnin lýsti því hvernig verðbólgan mundi senn hníga hægt en örugglega og var það ekki fyrir jólin sem ríkisstjórnin talaði líka um svigrúmið sem var að myndast til að lækka vexti þegar krónan mundi styrkjast? Jú, herra forseti. Ef mig misminnir ekki, þá var það einmitt fyrir síðustu jól. En ríkisstjórnin eins og svo margir aðrir að því er þetta varðar fór því miður í jólaköttinn.``

Jæja. Var það svo? Það er nefnilega þetta sama með jólaköttinn og tifandi tímasprengjuna, þetta sprakk allt í einni lotu í hugarheimi viðkomandi þingmanns. Það er fróðlegt að sjá þessa hluti, hvernig þetta hefur gerst og hvernig veruleikinn hefur síðan birst mönnum.

Gengisvísitalan hefur farið úr 151 niður í 133 með styrkingu gengisins sem menn sögðu um jólin að væri algjörlega vonlaust. Vaxtalækkunarskeið er hafið, segir seðlabankastjóri í dag. Þegar Seðlabankinn lækkaði vexti 26. mars var hann gagnrýndur af ýmsum, þar á meðal Þjóðhagsstofnun. Nú er komið á daginn að þetta var hárrétt ákvörðun hjá Seðlabankanum, og studd af ríkisstjórninni auðvitað. Fram undan eru aftur tímar sem virðast vera rólegir. Sumarið hefur jafnan verið mjög rólegt í verðlagsmálum. Það er engin undirliggjandi verðbólga að mati Seðlabanka og annarra slíkra aðila þannig að ef við höldum rétt á spilum verður verðbólgan væntanlega um eða í kringum 2% frá upphafi til loka ársins sem er mikill munur frá 9,7--9,8% frá upphafi til loka fyrra árs. Þetta lítur heldur betur vel út, herra forseti.