Verðlagsmál

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 12:45:56 (7610)

2002-04-17 12:45:56# 127. lþ. 119.95 fundur 508#B verðlagsmál# (umræður utan dagskrár), JB
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[12:45]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Það er ánægjulegt að vísitala neysluverðs helst nú 1. maí innan þeirra marka sem launþegasamtök og atvinnurekendur settu fyrir óbreyttri stöðu kjarasamninga. Herra forseti. Þetta sýnir líka hversu mikilvægt það er að við höfum yfir að ráða sjálfstæði í ráðstöfun efnahagsmála okkar.

Ótti almennings og atvinnulífs við verðbólguna er mikill og sú umræða og sá þrýstingur sem beitt hefur verið gegn verðhækkunum síðustu mánuði hefur örugglega haft áhrif og dregið úr eða seinkað hækkunum verðlags.

Rétt er að hafa í huga að uppsveiflan í hagkerfi síðustu 5--10 árin hefur verið rekin áfram sérstaklega á stóraukinni einkaneyslu og allt of stór hluti þessarar einkaneyslu er fjármagnaður með lántökum. Hvernig hagkerfið bregst síðan við þegar einkaneyslan dregst saman og byrðin vegna endurgreiðslu lána þyngist er eftir að sjá. Handaflsaðgerðir í hagstjórn eins og beitt hefur verið á síðustu mánuðum geta átt rétt á sér í afmörkuðum tímabundnum aðgerðum en sem almennu framtíðarstjórntæki í efnahagsmálum held ég að fáir mæli með þeim.

Sú hagstjórnartækni sem beitt hefur verið undanfarið hefur fyrst og fremst beinst að huglægum þáttum og því að styrkja trú almennings og atvinnulífs á gengi, trú á það að hægt sé að halda hér stöðugu verðlagi o.s.frv. Ég tek undir að sá þáttur er mikilvægur, hann er mikilvægur í rekstri hverrar þjóðar og hvers þjóðarbús. En þá er líka eins gott að setja fingur í kross um það hvernig framhaldið verður.

Nú berast fréttir af því að verslunin sé rekin með tapi og það sé óvíst hversu lengi hún getur haldið niðri verðlagi. Sömuleiðis tímabundnar aðgerðir eins og lækkun gjalda á bensíni og slíkar aðgerðir, hve langt draga þær?

Það sem þarf að gera, herra forseti, er að styrkja innviði íslensks atvinnulífs. Útflutningstekjur þurfa að aukast, framleiðslan innan lands þarf að aukast, það þarf að styrkja byggð og búsetu um land allt, og mér ógnar áframhaldandi brottflutningur fólks af landsbyggðinni og veiking atvinnulífs þar. Slík þróun er ávísun á óstöðugleika.