Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:52:43 (7625)

2002-04-17 13:52:43# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), DrH
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Drífa Hjartardóttir:

Herra forseti. Mikilvægi Greiningar- og ráðgjafarstöðvar ríkisins er ótvírætt. Þar fer fram afar mikilvæg þjónusta sem við getum ekki verið án. Mjög fróðlegt var fyrir okkur sem störfum í félmn. að heimsækja Greiningarstöðina sl. haust og hitta þar starfsmenn stofnunarinnar.

Mál eins og þessi sem við ræðum hér í dag eru alltaf mikil tilfinningamál sem verður þó að ræða af yfirvegum og það þjónar engum tilgangi og við leysum ekki vandann með upphlaupi og stóryrðum. En það er eðlilegt að hlusta á gagnrýni og bæta úr því sem betur má fara.

Herra forseti. Segja má að fæðing barns sé alltaf kraftaverk en það er ekki sjálfgefið að öll börn fæðist heilbrigð. Þau börn sem búa við fötlun þurfa og eiga að fá hjálp frá samfélaginu. Það er eindreginn vilji félmrh. að leysa þann vanda sem kominn er upp eins og kom fram hjá hæstv. félmrh. Þá hefur ráðuneytið einnig tilkynnt í fjárlagatillögum sínum óskir um verulega aukið fjármagn til reksturs Greiningarstöðvarinnar. Það er gert til þess að hægt verði að vinna að bráðavanda stofnunarinnar og samhliða þessu verði gripið til annarra nauðsynlegra rekstraraðgerða.

Í svari hæstv. félmrh. við fyrirspurn hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur kemur fram að 196 einstaklingar greindust með einhverfu eða skyldar raskanir á tímabilinu 1992--2001. Og þá spyr maður sig, hvað er að gerast, hvers vegna er tíðni einhverfu að breytast svona ört? Það kemur líka fram í svarinu að það megi reikna með að 20 börn í hverjum árgangi þurfi á mismiklum stuðningi að halda, en sú tala var áætluð 9--10 börn á árinu 1999.

Herra forseti. Það er brýnt að í framhaldi af frumúttekt á Greiningarstöðinni fari fram heildstætt mat á þjónustu við fötluð börn og ungmenni og ábyrgð þeirra sem koma að greiningu á fötlun og það verði ljóst hvert hlutverk sveitarfélaganna er, hvert hlutverk heilbrigðisþjónustunnar er og síðast en ekki síst --- hvert er hlutverk Greiningarstöðvarinnar?