Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 13:55:04 (7626)

2002-04-17 13:55:04# 127. lþ. 119.96 fundur 513#B Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins# (umræður utan dagskrár), MS
[prenta uppsett í dálka] 119. fundur, 127. lþ.

[13:55]

Magnús Stefánsson:

Hæstv. forseti. Greiningar- og ráðgjafarstöðin er mikilvægur hlekkur í velferðarþjónustunni og sá hlekkur má ekki fela í sér veikleika. Það er ljóst að mikil þörf er fyrir þá þjónustu sem stöðin veitir og allt of margir einstaklingar bíða nú eftir þjónustu hjá stöðinni. Það er aðkallandi að leysa þetta mál sem allra fyrst þannig að þau börn sem þurfa á þjónustunni að halda fái hana. Það er ekki ásættanlegt fyrir okkur að þetta ástand vari lengur.

Eins og á við um aðrar stofnanir ríkisins þegar fjárhags- og rekstrarvandi kemur upp, er mikilvægt að greina fjárhagslega stöðu stöðvarinnar og starfsemi hennar í heild. Úrbætur eiga m.a. að byggjast á grundvelli slíkrar úttektar. Eins og fram hefur komið er nú unnið að því verkefni og er það vel.

Í mínum huga er það forgangsmál að leysa það mál sem hér er rætt. Það á að vera forgangsverkefni okkar að tryggja að þau börn sem þurfa á þjónustu Greiningar- og ráðgafarstöðvarinnar að halda fái hana á eðlilegan hátt. Ég treysti hæstv. félmrh. vel til að leysa þetta mál, enda er nú unnið að því markvisst eins og fram hefur komið.

Herra forseti. Það mál sem hér er rætt fjallar um mikilvæga hagsmuni barna og fjölskyldna þeirra. Þeir hagsmunir snúa ekki síst að framtíðinni, að framtíð viðkomandi barna og eru þeir varðir í lögum. Við eigum og okkur ber að gera það sem í okkar valdi stendur til þess að tryggja þá mikilvægu hagsmuni sem hér eru í húfi.