Ófrjósemisaðgerðir 1938--1975

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 14:12:53 (7632)

2002-04-17 14:12:53# 127. lþ. 120.1 fundur 388. mál: #A ófrjósemisaðgerðir 1938--1975# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., ÞSveinb (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 127. lþ.

[14:12]

Þórunn Sveinbjarnardóttir:

Hæstv. forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. heilbrrh. fyrir að fylgja skýrslunni um ófrjósemisaðgerðir á árunum 1938--1975 úr hlaði og hæstv. forseta fyrir að taka hana á dagskrá þingsins.

Ástæða þess að skýrslubeiðnin var lögð fram, fyrst á 125. löggjafarþingi, var umfjöllun Morgunblaðsins, sem sú sem hér stendur rak augun í, í júnímánuði 1999, um dóm sem féll árið 1996, en þá var íslenska ríkinu gert að greiða manni 4 millj. kr. í bætur vegna ólögmætrar ófrjósemisaðgerðar sem á honum hafði verið gerð árið 1973. Þá hefur verið samið við tvo aðra einstaklinga um bótagreiðslur vegna ólögmætra ófrjósemisaðgerða.

Hæstv. forseti. Skilningur okkar á samtímanum hlýtur m.a. að byggja á þekkingu okkar á sögunni. Skýrsla sú sem hér er til umræðu er um margt fróðleg og gagnleg og varpar ljósi á sögu okkar og ráðandi stjórnmálastefnur á fyrri hluta 20. aldarinnar. Höfundur skýrslunnar, Unnur Birna Karlsdóttir sagnfræðingur, hefur greinilega lagt sig fram um að koma staðreyndum til skila á faglegan og hlutlægan hátt.

Lög nr. 16/1938 féllu úr gildi árið 1975, eins og fram hefur komið, nema að því er varðar afkynjanir, en ég mun víkja að þeim síðar í ræðu minni. Vilmundur Jónsson, landlæknir og þingmaður Alþýðuflokksins, var höfundur laganna og greinargerðar þeirrar sem fylgdi lögunum og lög svipuð þessum voru sett víða um heim á fyrri hluta 20. aldar. Lagasetningin er skilgetið afkvæmi arfbótastefnunnar og þótt hún hafi verið nokkuð mismunandi eftir löndum var, svo vísað sé beint í skýrsluna, með leyfi forseta, ,,... fyrst og fremst miðað að því að heimila ófrjósemisaðgerðir á þroskaheftu og geðsjúku fólki.`` Lögin hlutu litla umræðu á Alþingi 1937 og voru samþykkt samhljóða.

Það er mikilvægt að hafa í huga að tilgangur löggjafarinnar var ekki síst að hafa vit fyrir fólki sem talið var að kynni ekki fótum sínum forráð vegna greindarskorts eða sjúkdóma. Var það almennt álitið bæði sjálfsagt og mannúðlegt, eins og afgreiðsla þingsins á frv. ber með sér, enda geri ég ráð fyrir því að löggjöfin hafi endurspeglað tíðarandann í samfélaginu á fjórða áratug síðustu aldar.

Einnig þótti það ekki athugavert að því er virðist að draga úr viðkomu þeirra, eins og það er orðað, sem þóttu búa yfir lökum erfðaeiginleikum með almannahagsmuni í huga, ekki síst til þess að koma í veg fyrir að fleiri lentu á sveit, ellegar væru dragbítar á efnahagslegum og menningarlegum framförum þjóðar, eins og segir í skýrslunni.

Í greinargerð Vilmundar Jónssonar segir, með leyfi forseta:

,,Vönun andlegra fáráðlinga léttir þeim lífið, er þjóðinni til hagsbóta og dregur úr úrkynjun komandi kynslóða.``

Arfbótastefnan var sem sagt talin mannúðleg og öllum fyrir bestu.

Herra forseti. Á undanförnum árum hafa upplýsingar um nauðungaraðgerðir, þ.e. ófrjósemisaðgerðir án vitundar og vilja viðkomandi sem gerðar voru í öðrum löndum í krafti svipaðra lagasetninga kallað fram sterk viðbrögð almennings, t.d. í Svíþjóð og Bandaríkjunum. Sums staðar hefur ríkisvaldið greitt miskabætur þeim sem sýnt þykir að brotið hefur verið á, en fólk hefur einnig leitað réttar síns fyrir dómstólum.

Í lögunum frá 1938 eru ófrjósemisaðgerðir nefndar vananir, þótt samkvæmt íslenskri málvenju séu vananir notaðar um geldingu karldýra. Hins vegar þykir rétt að kalla aðgerðirnar hér sínu rétta nafni, þ.e. ófrjósemisaðgerðir. Eins og fram hefur komið voru gerðar alls 722 ófrjósemisaðgerðir hér samkvæmt þessum lögum á árabilinu 1938--1975. 98% þeirra sem undirgengust þær voru konur og langflestar aðgerðirnar, eða um 83%, voru gerðar af læknisfræðislegum ástæðum.

Hafa verður í huga að góðar og öruggar getnaðarvarnir fyrir konur komu ekki á markað fyrr en undir lok sjöunda áratugarins og ljóst er að margar konur hafa valið þann kostinn að gangast undir ófrjósemisaðgerð til þess að koma í veg fyrir frekari barneignir. Það eru hins vegar, herra forseti, þær 120 aðgerðir, eða 16% heildarfjöldans, sem framkvæmdar voru vegna andlegs vanþroska eða geðveiki viðkomandi sem við lestur skýrslunnar kalla á nánari athugun. Tæpur helmingur þessara 120 einstaklinga undirritaði ekki sjálfur umsókn um ófrjósemisaðerð.

Ákvæði laganna um ófrjósemisaðgerðir voru svohljóðandi, með leyfi forseta:

,,2. Vönun skal því aðeins leyfa:

a. Að gild rök liggi til þess, að viðkomandi beri í sér að kynfylgju það, er mikil líkindi séu til, að komi fram á afkvæmi hans sem alvarlegur vanskapnaður, hættulegur sjúkdómur, andlegur eða líkamlegur, fávitaháttur eða hneigð til glæpa, eða að afkvæmi hans sé í tilsvarandi hættu af öðrum ástæðum, enda verði þá ekki úr bætt á annan hátt.

b. Að viðkomandi sé fáviti eða varanlega geðveikur eða haldinn öðrum alvarlegum langvarandi sjúkdómi og gild rök liggi til þess, að hann geti ekki með eigin vinnu alið önn fyrir sjálfum sér og afkvæmi sínu.``

Rúmlega 90% þeirra sem gengust undir aðgerðirnar af framangreindum sökum voru konur og ungar stúlkur. Það vakti sérstaka athygli mína við lestur skýrslunnar að gerðar voru ófrjósemisaðgerðir á telpum niður í 11 ára aldur og 31 kona sem gekkst undir aðgerðina án þess að undirrita sjálf umsóknina var tvítug eða yngri.

Hæstv. forseti. Fjórar afkynjanir voru framkvæmdar samkvæmt umræddum lögum, allar á körlum. Síðast var slík aðgerð framkvæmd hér á landi árið 1971. Ég vil nota þetta tækifæri til þess að benda hv. þingmönnum á að afkynjanir eða geldingar eins og þær heita á mannamáli, eru enn heimilar samkvæmt lögum á Íslandi. Án þess að hafa kannað það sérstaklega leyfi ég mér að efast um að slíkar aðgerðir séu enn löglegar í nágrannalöndum okkar og spyr hæstv. heilbrrh. hvort hann hyggist beita sér fyrir því að þetta forna og villimannslega ákvæði verði fellt úr gildandi lögum.

Hæstv. forseti. Í skýrslunni segir að þær heimildir sem úttektin styðjist við gefi að jafnaði engar upplýsingar um það hvernig staðið var að því að fá samþykki þess er gera átti ófrjóan þegar frumkvæðið kom frá öðrum en honum sjálfum, þ.e. í þau skipti sem viðkomandi samþykkti aðgerðina en átti ekki frumkvæði að henni.

Það kemur enn fremur fram að í flestum tilfellum hafi verið óljóst hvaðan frumkvæði að beiðni kom raunveruleg fram þegar sótt var um ófrjósemisaðgerð vegna andlegs vanþroska eða geðsjúkdóms, en aðdragandinn er með margvíslegum hætti eins og fram kemur í skýrslunni á bls. 14. Þetta atriði krefst ítarlegrar rannsóknar eins og skýrsluhöfundur bendir á og er ástæða til þess að fagna því að hæstv. heilbrrh. hafi hér í framsöguræðu sinni lýst vilja sínum til þess að láta vinna ítarlegri skýrslu um þessi atriði og fleiri.

Hæstv. forseti. Ég dreg þá ályktun af lestri skýrslunnar um ófrjósemisaðgerðir á árunum 1938--1975 að hið opinbera hafi ekki unnið kerfisbundið að því að gera þá ófrjóa sem sagðir voru greindarskertir, geðsjúkir eða á annan hátt andfélagslegir. Þær upplýsingar sem hér liggja fyrir kalla engu að síður á frekari rannsóknir á framkvæmd fyrrgreindra laga.

Ég vil því ítreka þakkir mínar til hæstv. heilbrrh. um að sú rannsókn eigi að fara fram og að nánar verði kannað hvernig heildarframkvæmd þessara laga var háttað, farið betur yfir hugsanleg vafamál og tilteknir þættir í framkvæmd laganna, t.d. kynskiptingin, kannaðir nánar og einnig að samanburður verði gleggri við útlönd eða þau lönd sem við höfum helst borið okkur saman við í þessu máli.

Ég vil taka undir með hæstv. heilbrrh. að brýnt er að læra af reynslu fortíðar til þess að móta stefnu til framtíðar.