Ófrjósemisaðgerðir 1938--1975

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 14:27:19 (7634)

2002-04-17 14:27:19# 127. lþ. 120.1 fundur 388. mál: #A ófrjósemisaðgerðir 1938--1975# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 127. lþ.

[14:27]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Hér er til umræðu merk skýrsla frá heilbrrh. um ófrjósemisaðgerðir sem gerðar voru á árunum 1938--1975 og eru upplýsingarnar byggðar á óbirtri rannsókn Unnar Birnu Karlsdóttur eins komið hefur fram. Ég vil þakka fyrir þessa skýrslu og það frumkvæði sem þingmaðurinn Þórunn Sveinbjarnardóttir hafði um að óska eftir henni.

Árið 1975 féllu lög um ófrjósemisaðgerðir og fóstureyðingar úr gildi, þ.e. lögin frá 1938, og við tóku ný lög með nýju hugarfari. Rétt er í upphafi að geta þess að það sem lýst er í skýrslunni heyrir sögunni til og mikilvægt er að halda því til haga hvernig að málum var staðið á árum áður og hvers vegna.

Lögin frá 1938 giltu í ein 38 ár og á þeim tíma voru framkvæmdar 726 ófrjósemisaðgerðir. Svo til allar teljast til flokksins ófrjósemisaðgerðir eða vananir, en það eru aðgerðir þar sem rásum til kynkirtla karla og kvenna er lokað með skurðaðgerð. Einnig voru fjórir karlar afkynjaðir, þ.e. kynkirtlar þeirra fjarlægðir með skurðaðgerð til að svipta mennina getu og kynhvöt vegna kynferðisafbrota.

Í ofannefndri skýrslu kemur fram að í 16,6% ófrjósemisaðgerða, eða alls 120 aðgerðum, var andlegur vanþroski eða geðveiki sögð meginástæða aðgerðar. Langflestar ófrjósemisaðgerðirnar hins vegar, eða alls 602 aðgerðir, voru framkvæmdar af læknisfræðilegum ástæðum. Þær voru að meðaltali um 16 á ári og voru gerðar vegna sjúkdóma eða langvarandi veikinda viðkomandi, hættu á veikindum konu á meðgöngu eða misförum hennar eða barns í fæðingu, sterkum líkum á fósturskaða ef um frekari meðgöngur yrði að ræða eða erfðagöllum. Heimilt var að taka tillit til erfiðra félagslegra aðstæðna ásamt læknisfræðilegum, en ekki eingöngu félagslegra. Flestar þessar aðgerða voru gerðar á konum. Rétt er að hafa í huga að á þessum árum var ekki um auðungan garð að gresja hvað getnaðarvarnir varðar því pillan svonefnda kom ekki á markað hér á landi fyrr en haustið 1965 og alllangan tíma tók að vinna henni sess, vel fram yfir 1970. Þó að lykkjan hafi einnig komið til var hún eingöngu nothæf fyrir þær konur sem eignast höfðu börn. Hún var mjög stór og fyrirferðarmikil og olli óþægindum við uppsetningu og var ekki sett upp hjá konum sem ekki höfðu átt börn.

Um 90% þeirra umsókna um ófrjósemisaðgerðir sem komu til framkvæmda á þessum árum voru undirritaðar af þeim sem gekkst undir aðgerð eða alls 646 umsóknir, en 17 undirritaðar af þeim sem gera átti ófrjóan ásamt öðrum aðila, foreldrum, systkini eða skipuðum tilsjónarmanni. 59 einstaklingar voru gerðir ófrjóir án þess að undirrita sjálfir beiðni um það. Í flestum tilvikum sóttu þá foreldrar um að aðgerð færi fram. Andlegur vanþroski var skráður ástæða aðgerða í flestum tilvikum og geðveiki í nokkrum. Þeir einstaklingar sem voru gerðir ófrjóir án þess að undirrita sjálfir umsókn, þ.e. samkvæmt beiðni annarra, voru á aldursbilinu 11--46 ára. Þar af voru 37 um eða innan við tvítugt, 15 voru á þrítugsaldri, fimm á fertugsaldri og tveir á fimmtugsaldri, eins og segir í skýrslunni.

[14:30]

Herra forseti. Í bókinni Umdeildar fjölskyldur eftir Hönnu Björgu Sigurjónsdóttur og Rannveigu Traustadóttur sem út kom hjá Félagsvísindastofnun 1998 var sagt frá erlendum rannsóknum á fjölskyldum þroskaheftra og var bókin sniðin að þörfum fagfólks. Í nýlegri bók eftir sömu höfunda, Ósýnilegar fjölskyldur, sem gefin var út af Háskólaútgáfunni 2001 er á nærfærinn hátt fjallað um seinfærar eða þroskaheftar mæður og börn þeirra. Ég skrifaði ritdóma um báðar þessar bækur fyrir Morgunblaðið. Í síðarnefndu bókinni er lýst rannsókn sem gerð var hér á landi og byggt á viðtölum við fjölda fólks en aðalviðmælendur, grunnurinn, eru þó 10 þroskaheftar eða seinfærar konur á aldrinum 26--83 ára svo og viðtöl við þrjú uppkomin börn þeirra.

Nokkuð algengt er að þroskaheftir foreldrar eignist þroskaheft börn. Af áðurnefndum 20 börnum sem þessar konur eignuðust hafa sjö greinst á eftir í þroska. Konurnar elskuðu börnin sín eins og flestar konur gera og vildu þeim allt það besta, og börnin lýsa því hvernig var að alast upp hjá þroskaheftri móður. Alls staðar skín í gegn djúpur skilningur, væntumþykja og móðurást eins og hjá hverjum öðrum. Þær 10 konur sem fjallað er um í bókinni hafa eignast alls 20 börn en aðeins sjö kvennanna fengu að halda börnum sínum og ala þau upp. Raunalegt er til þess að hugsa að sumar þessar fötluðu konur urðu þungaðar eftir nauðganir eða kynferðislega misnotkun og fyllist maður réttlátri reiði í garð þeirra misindismanna sem nýttu sér veikleika fatlaðra kvenna sem ekki gátu borið hönd fyrir höfuð sér.

Herra forseti. Rétt er að hafa í huga að á þeim árum sem skýrsla þessi fjallar um var ekki um auðugan garð að gresja í getnaðarvörnum eins og fram hefur komið. Nú er öldin önnur og má segja að varla nokkur slík aðgerð hafi átt sér stað sl. 10--15 ár. Það viðhorf ríkir nú að beiðnum um ófrjósemisaðgerðir er hafnað nema samþykki og vitneskja sjúklings sé fyrir hendi. Samkvæmt upplýsingum sem ég hef fengið hefur einungis ein slík beiðni komið fram frá árinu 1994, og henni var hafnað.

Herra forseti. Að lokum vil ég segja að í mörgum tilvikum sem að ofan er lýst, þar sem 59 einstaklingar voru gerðir ófrjóir án þess að undirrita sjálfir beiðni um það, er um mannlega harmsögu að ræða og með því að rifja upp söguna er tryggt að hún er geymd en ekki gleymd.