Ófrjósemisaðgerðir 1938--1975

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 14:33:25 (7635)

2002-04-17 14:33:25# 127. lþ. 120.1 fundur 388. mál: #A ófrjósemisaðgerðir 1938--1975# beiðni um skýrslu frá heilbrrh., GÖ
[prenta uppsett í dálka] 120. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur fyrir að leggja fram beiðni um þessa skýrslu. Að fortíð skal hyggja þá framtíð skal byggja.

Sú skýrsla sem hér liggur frammi, verk Unnar Birnu Karlsdóttur, er mjög umfangsmikil og kannski efni í doktorsritgerð að hluta. Hér hefur verið mikið verk að vinna enda oft erfitt að ná í svona gömul gögn. Ekki hafa þau öll legið á einum stað en sem betur fer lét hún ekki deigan síga.

Þegar um svona skýrslu var beðið óttuðust þingmenn kannski að við gætum fengið upp svipuð dæmi og í Skandinavíu forðum þar sem í ljós kom að fjöldi kvenna á heilu stofnununum var tekinn úr sambandi í þeim skilningi sem við ræðum hér. Það voru auðvitað afar alvarleg mál og í rauninni mannréttindabrot þó að einhverjar heimildir hafi verið í lögunum.

Það er líka afar fróðlegt að líta til baka og skoða orðnotkunina eins og hún var þá, samanber t.d. bls. 3, með leyfi forseta:

,,Í fyrsta lagi sú aðgerð sem nefnd er ,,vönun`` í lögunum. Þar var átt við skurðaðgerðir þar sem göng til kynkirtlanna eru hlutuð í sundur eða þeim lokað (eggvegir kvenna, sáðrásir karla). Eins og vitað er var og er orðið ,,vönun`` annað orð í íslensku yfir geldingu karldýra, þ.e. þá aðgerð þegar eistu eru tekin burt með skurðaðgerð. Skýringin á notkun orðsins ,,vönun`` yfir annars konar aðgerð var sú að Vilmundi Jónssyni, þáverandi landlækni og höfundi lagafrumvarpsins, þótti orðið þjált ...`` --- Í rauninni er alveg hreint ótrúlegt að svona skuli háttað. Í skýrslunni segir svo áfram: ,,Hann útskýrði það með því að ekkert orð væri til í íslensku yfir slíka aðgerð sem væri ,,vægileg og lítils háttar,`` miðað við geldingu.``

Gelding er líka það sem auðvitað er notað í tengslum við dýrin. Og síðan er það sjálf afkynjunin. Þau lög eru enn í gildi alls staðar á Norðurlöndunum og sennilega um allan heim en auðvitað þarf að skoða þau í dag með tilliti til þess raunveruleika sem við búum við. Eflaust hefur mjög oft verið ætlunin að taka þau upp en ástæðan fyrir því að svo hefur ekki verið gert hér er sennilega sú að þetta er bara ein lítil lagagrein sem hefur eiginlega ekkert verið notuð. Kannski ég beini því til hæstv. heilbrrh. að hann láti skoða þetta.

Hv. þm. Katrín Fjeldsted fór yfir stöðu kvenna sem er líka afar fróðlegt erindi vegna þess að í rauninni lýtur þetta mjög að stöðu kvenna á þessum tíma. Við erum að tala hér fyrst og fremst um konur, í öðru lagi um þroskaheftar konur og að örlitlum hluta karla. Því er háttað þannig enn í dag að karlmenn láta lítið taka sig úr sambandi, þroskaheftir eða ekki, til að stemma stigu við barneignum. Mér finnst líka afar mikilvægt að halda því til haga hér að ófrjósemisaðferð er afar góð aðgerð til að forðast barneignir og fín getnaðarvörn fyrir þær konur sem vilja ekki eiga fleiri börn. Það er engin ástæða til að tala illa um þá aðgerð því hún er mjög góð í réttu samhengi.

Fimm til tíu árum áður en þessi lög féllu úr gildi voru ófrjósemisaðgerðir meira eða minna fyrst og fremst gerðar að ósk kvennanna sjálfra. Þannig er það enn fremur í lögunum í dag, einstaklingurinn sjálfur biður um þessa aðgerð, karl eða kona. Eitt hefur kannski mjög skort á og það er skrásetning á ófrjósemisaðgerðum karla, því miður. Það félag sem ég er í forustu fyrir, Fræðslusamtök um kynlíf og barneignir, hefur bent á þetta. Úr því þarf að bæta og mun verða bætt.

Fortíðin leiðir líka hugann að þeim hópi sem ekki er fjallað um í þessari skýrslu. Það eru allar þær konur sem sóttu um aðgerðir en fengu synjun. Það er afar stór hópur kvenna og ég sá hluta þeirra skýrslna þegar ég vann á kvennadeild. Það er alveg óskaplega fróðlegt að sjá ægivald lækna og annarra í þeim efnum þannig að þar er nýtt viðfangsefni sem væri mjög gaman að bæta við slíka rannsókn. Ég býst líka við að næsta skref Unnar Birnu Karlsdóttur sé doktorsritgerð við Háskóla Íslands.