Breyting á reglugerð nr. 68/1996

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 15:02:10 (7642)

2002-04-17 15:02:10# 127. lþ. 121.1 fundur 529. mál: #A breyting á reglugerð nr. 68/1996# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[15:02]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það er alveg rétt að það er óánægja í röðum heilsugæslulækna sem þetta vottorðamál er hluti af en óánægjan er víðtækari en varðandi það mál eingöngu. Óánægjan er líka til komin vegna starfsumhverfis læknanna. Við þá eru gerðir samningar með öðrum hætti en við aðra sérfræðinga. Það er auðvitað þáttur í því sem hv. þm. bætti við spurningu sína, að aðrir sérfræðingar fá laun sín í gegnum aðra samninga heldur en heilsugæslulæknar.

Ég hef verið í viðræðum við forustu heilsugæslulæknanna um hvort hægt sé að breyta starfsumhverfi þeirra með einhverjum hætti. Ég hef ekki lokað á það af minni hálfu. Ég vil samt hafa grundvöllinn í því að heilsugæslan sé grunnþjónusta, þjónusta sem veitt er úti í hverfunum og sé, t.d. hér á höfuðborgarsvæðinu, aðgengileg fyrir alla og kosti það sama fyrir alla. Ég útiloka hins vegar hvorki að skoða aðferðina við að gera launasamninga við heilsugæslulækna né að skoðað verði við hvaða starfsumhverfi þeir starfa. Þær viðræður standa yfir.

Önnur ástæða óánægjunnar eru deilur sem liggja utan við ráðuneytið, þ.e. viðbrögð aðila úti í samfélaginu sem hafa borið upp á lækna lögbrot og sjálftöku. Þau orð eru ekki mín. Það var hefð fyrir þessu fyrirkomulagi og það hafði viðgengist um nokkurra ára skeið. Ég hef hvorki borið upp á læknana lögbrot né sjálftöku í þessum efnum. Ég vil að það komi fram í þessari umræðu.