2002-04-17 15:14:41# 127. lþ. 121.20 fundur 660. mál: #A öryggisráðstafanir lögreglunnar í tengslum við fund utanríkisráðherra NATO# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., Fyrirspyrjandi ÞSveinb (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[15:14]

Fyrirspyrjandi (Þórunn Sveinbjarnardóttir):

Hæstv. forseti. Ég hef lagt svohljóðandi fyrirspurn fyrir hæstv. dómsmrh. um öryggisráðstafanir lögreglunnar í tengslum við fund utanríkisráðherra Atlantshafsbandalagsins sem eins og kunnugt er verður haldinn í Reykjavík 14.--15. maí nk. Spurningarnar eru eftirfarandi:

1. Til hvaða öryggisráðstafana mun lögreglan grípa í tengslum við fund utanríkisráðherra NATO í Reykjavík 14.--15. maí nk.?

2. Hver er heildarkostnaður ríkisins við þær öryggisráðstafanir?

3. Hver er sundurliðaður kostnaður lögreglunnar við tækjakaup í tengslum við fundinn og í hverju felst sá kostnaður?

4. Hefur sérstök sveit óeirðalögreglumanna verið þjálfuð fyrir fundinn? Ef svo er, hvers vegna, hvert er hlutverk hennar og hver er kostnaðurinn við þjálfun og störf slíkrar sveitar?

Eftir að þessi fyrirspurn var lögð fyrir á hinu háa Alþingi birtist frétt í Morgunblaðinu --- það var 12. apríl sl. --- þar sem fjallað var um að lögreglumenn hefðu meiðst á námskeiðum sem haldin væru vegna fundarins, það væri sem sagt verið að halda sérstök þjálfunarnámskeið fyrir lögreglumenn vegna NATO-fundarins, og að verið væri að grafast fyrir um orsakir þessara meiðsla. Ég læt þetta fylgja með, herra forseti, þó að þetta sé kannski ekki aðalatriði fyrirspurnarinnar. Hér má þó t.d. lesa að menn ætla að búa sig undir ýmislegt misjafnt á fundinum í maí. Ég les upp úr fréttinni, með leyfi forseta:

,,Tildrög einna meiðslanna voru rakin til þess að lögreglumanni var falið að leika ,,óeirðasegg`` með því að hlaupa á varnarlínu sem félagar hans mynduðu með lögregluskjöldum. Þegar óeirðaseggurinn lenti á varnarlínunni kom hann illa niður á jörðina og mun hafa lent á steinvölu, svo liðband í fæti varð fyrir hnjaski.``

Ég geri mér fulla grein fyrir því, herra forseti, að lögreglan þarf að vera við flestu búin. En mig langar til þess að inna hæstv. dómsmrh. eftir því hvort það sé hreinlega gert ráð fyrir því að óeirðir verði í borginni vegna þessa fundar. Ég leyfi mér að velta því fyrir mér hvort það sé endilega rétta hugarfarið til þess að nálgast þetta viðfangsefni. Ég geri mér grein fyrir því að það þarf að gæta öryggis þeirra fyrirmenna sem hér verða og fylgdarliðs þeirra, en hingað til höfum við reynst tiltölulega friðsöm þjóð og ég sé það ekki alveg blasa við að óeirðir verði vegna fundarins.