2002-04-17 15:26:22# 127. lþ. 121.20 fundur 660. mál: #A öryggisráðstafanir lögreglunnar í tengslum við fund utanríkisráðherra NATO# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[15:26]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Það er rétt að ítreka það sem ég sagði áðan að við erum skuldbundin samkvæmt alþjóðlegum reglum til að sinna öryggisgæslu með ákveðnum hætti og í samræmi við þá stöðu sem er í heiminum hverju sinni. Við getum ekki vikið okkur undan því á neinn hátt. Ég tel sjálfsagt að útvega hv. fyrirspyrjanda nákvæmar upplýsingar um það efni ef hún óskar eftir því.

Það verður að hafa í huga að á þessum dögum verða haldnir fimm mismunandi fundir með aðkomu 46 utanríkisráðherra og alþjóðareglur kalla á að við sinnum öryggisgæslu þeirra með ákveðnum hætti. Það er rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að ekki liggur enn fyrir hvort fjárveiting dugar til í þessum efnum, en það verður svo sannarlega reynt að halda sig innan þeirra marka.

Það er ekki verið að koma upp óeirðalögreglusveit eins og hv. þm. ýjar að í spurningu sinni. Hins vegar er rétt að lögreglan er að búa sig undir að takast á við allt sem upp getur komið í tengslum við fund af þeirri stærðargráðu sem hér um ræðir. Þar á meðal eru óeirðir. Líkurnar á því eru hins vegar ekki miklar eins og ég hef einnig vikið að.

Það er á okkar ábyrgð að tryggja öryggi þeirra sem sækja þennan fund og þeim skyldum okkar ætlum við ekki að bregðast. Eins og ég vék að þá liggur ekki fyrir endanleg sundurliðun kostnaðar vegna fundarins en búnaðarkaup eru vissulega stór þáttur í þeim kostnaði. Það verður að hafa í huga í því sambandi að í ljósi umfangs fundarins verður lögregla að vera undir það búin að takast á við það ef reynt verður að efna til uppþota. Það er því fullkomlega eðlilegt að búa lögregluna út með viðeigandi hætti þannig að hún geti tekist á við það sem upp getur komið. Búnaður þessi er fyrst og fremst hugsaður til þess að verja lögreglumenn fyrir árásum ofbeldismanna og koma í veg fyrir að lögreglumenn slasist alvarlega.

Varðandi athugasemd frá hv. þm. Sigríði Jóhannesdóttur þá var hún ágæt. Það er vissulega rétt athugað hjá henni að við þurfum að fylgjast vel með hugsanlegri komu einhverra slíkra aðila hingað til lands sem vilja e.t.v. koma af stað einhverjum uppþotum og óeirðum.