Evrópusamstarf um sjaldgæfa sjúkdóma

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 15:31:34 (7653)

2002-04-17 15:31:34# 127. lþ. 121.3 fundur 602. mál: #A Evrópusamstarf um sjaldgæfa sjúkdóma# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[15:31]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 19. þm. Reykv. spyr á hvaða hátt íslensk heilbrigðisyfirvöld hafi tekið þátt í fimm ára verkáætlun Evrópusambandsins vegna sjaldgæfra sjúkdóma.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa tekið þátt í vinnuhópum um lýðheilsu og tekið þátt í verkáætlunum Evrópusambandsins á því sviði undanfarin ár. Hófst þetta í samstarfi við hin EFTA-löndin, þ.e. Liechtenstein og Noreg, og voru verkáætlanirnar á sviði heilsueflingar, krabbameinsvarna, vímuvarna, heilbrigðisgátar og varna gegn alnæmi og fleiri smitsjúkdómum. Evrópusambandið setti síðan á laggirnar þrjár umfangsminni áætlanir, þ.e. um sjaldgæfa sjúkdóma, slysavarnir og sjúkdóma tengda mengunarvörnum.

EFTA-löndin hafa tekið þátt í þessum þremur nýju áætlunum frá byrjun árs 2000 en þá þegar hafði verið ákveðið innan Evrópusambandsins að slá öllum þessum átta áætlunum saman í eina til þess að mæta breyttum tímum og gera áætlanirnar markvissari. Það er gert ráð fyrir að ný og töluvert breytt áætlun um lýðheilsu gangi í gildi í byrjun árs 2003.

Íslensk heilbrigðisyfirvöld hafa einbeitt sér að því að fylgjast vel með starfi nefndarinnar þau þrjú ár sem eftir lifðu af áætlununum þegar þátttaka EES-landanna var samþykkt. Hefur sóttvarnalæknir verið fulltrúi heilbrigðisyfirvalda og tengiliður við áætlunina. Tengist það m.a. tilkynningakerfum um sjaldgæfar sýkingar sem tilkynntar eru sameiginlega innan Evrópusambandsins og EFTA-landanna.

Þar sem ljóst var að um tímabundna áætlun yrði að ræða sem fljótlega mundi breytast þótti rétt af hálfu íslenskra yfirvalda að fylgjast vel með starfinu án þess að leggja út í verulegan kostnað við þátttöku. Greinargóðar upplýsingar hafa eigi að síður fengist af gangi mála og hefur þátttaka Íslands takmarkast við að fylgjast á þann hátt með starfi nefndarinnar.

Þegar ný verkáætlun Evrópusambandsins tekur gildi í byrjun árs 2003 mun Ísland ásamt öðrum EES-löndum taka þátt í því starfi.

Herra forseti. Ég vona að þetta hafi svarað spurningum hv. 19. þm. Reykv.