Lyfjakostnaður lífeyrisþega

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 15:38:30 (7657)

2002-04-17 15:38:30# 127. lþ. 121.4 fundur 617. mál: #A lyfjakostnaður lífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi JóhS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[15:38]

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Í svari heilbrrh. í vetur við spurningu minni um hlutdeild sjúklinga í lyfja- og lækniskostnaði kom fram að hlutur sjúklinga í lyfjakostnaði hefði vaxið um 80% að raunvirði á árunum 1995 til ársins 2000. Í þessu skriflega svari má sjá verulegar breytingar á greiðsluþátttöku sjúklinga, bæði í lágmarks- og hámarksverði á árinu 2000. Lágmarksgreiðslur höfðu rúmlega þrefaldast og hámarksgreiðslan hækkaði um 50% frá árinu 1995 til ársins 2000.

Í könnun á vegum BSRB kemur fram að lyfja- og lækniskostnaður hafi aukist um tugi og í sumum tilvikum hundruð prósenta á umliðnum árum. Í nýrri könnun á lyfjaverði sem ASÍ gerði og birt var nýlega kemur fram að hækkun á greiðsluhlutfalli sjúklinga um síðastliðin áramót hafi öll lent á sjúklingum en apótekin ekki tekið neitt af breytingunum á sig. Mesta hækkun á lyfseðilsskyldum lyfjum á höfuðborgarsvæðinu í þeirri könnun var 28,5% og mesta hækkun hjá lífeyrisþegum 387% á tilteknu lyfi.

Í lyfjaverðskönnun sem gerð var, sem byggði á samantekt úr könnunum á lyfjaávísunum úr nokkrum apótekum á landinu, komu fram sláandi niðurstöður um gífurlegan lyfjakostnað elli- og örorkulífeyrisþega. Þar koma allt of oft fram dæmi um að öryrkjar og aldraðir greiði hærri fjárhæð úr eigin vasa vegna lyfja en sem svarar meira en mánaðar lífeyrisgreiðslum, eða 75--80.000 kr. á ári. Í þessari úttekt vari líka dæmi um að öryrki greiddi 170.000 sjálfur í lyf á ári en fengi aðeins 58.000 kr. endurgreiddar. Einnig var dæmi um öryrkja sem greiddi tæpar 130.000 kr. í lyf á ári en fékk aðeins 50.000 kr. endurgreiddar.

Herra forseti. Það heyrist æ oftar að aldraðir og öryrkjar hafi ekki efni á að leita sér læknisþjónustu eða kaupa lyf. Þetta er auðvitað svartur blettur á velferðarkerfi okkar sem ekki verður við unað. Ég hef leyft mér, herra forseti, að flytja fyrirspurn til hæstv. ráðherra um lyfjakostnað lífeyrisþega, sem hljóðar svo, með leyfi forseta:

,,1. Hver var meðallyfjakostnaður árin 2000 og 2001 hjá

a. ellilífeyrisþegum,

b. örorkulífeyrisþegum?

Óskað er eftir upplýsingum um allan lyfjakostnað, bæði fyrir lyf sem Tryggingastofnun tekur þátt í að greiða og lyf sem lífeyrisþegar greiða að fullu.

2. Hversu mikinn afslátt fá lífeyrisþegar hjá lyfjaverslunum að meðaltali?``