Lyfjakostnaður lífeyrisþega

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 15:41:23 (7658)

2002-04-17 15:41:23# 127. lþ. 121.4 fundur 617. mál: #A lyfjakostnaður lífeyrisþega# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[15:41]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 5. þm. Reykv. spyr um meðallyfjakostnað ellilífeyrisþega og örorkulífeyrisþega árin 2000 og 2001.

Umbeðnar upplýsingar er helst að finna í lyfjagagnagrunni Tryggingastofnunar ríkisins. Þar kemur fram skipting lyfjakostnaðar milli Tryggingastofnunar og sjúklinga fyrir árið 2001 og fyrstu þrjá mánuði ársins 2002. Lyfjagagnagrunnurinn hefur að geyma um 80% allra lyfjaafgreiðslna apóteka árið 2001 og 95% afgreiðslna fyrir fyrstu þrjá mánuði ársins 2002. Sambærileg skipting fyrir árið 2000 er því miður ekki í grunninum. Fjöldi afgreiðslna það ár var ekki talinn nægjanlegur og upplýsingar um lyf sem Tryggingastofnun ríkisins greiðir ekki fyrir voru ekki skráðar í gagnagrunninn fyrr en um mitt ár 2001. Niðurstöðutölur fyrir árið 2001 hafa verið leiðréttar, m.a. með tilliti til þessa.

Hlutur sjúklinga í lyfjakostnaði er ávallt reiknaður miðað við hámarksverð, þar sem Tryggingastofnun hefur ekki upplýsingar um raunverulegt verð lyfja til sjúklinga.

Árið 2001 greiddu elli- og örorkulífeyrisþegar 20,6% lyfjakostnaðar. Til samanburðar var hluti einstaklinga án afsláttar 54,2% af lyfjakostnaði sama ár. Hvað fyrstu þrjá mánuði yfirstandandi árs varðar er hluti elli- og örorkulífeyrisþega 20,7% en annarra 55%.

Hlutfallsleg skipting lyfjakostnaðar milli Tryggingastofnunar ríkisins og sjúklinga breyttist því lítið milli ársins 2001 og fyrstu þriggja mánaða ársins 2002 þrátt fyrir að greiðsluhluti sjúklings hafi verið hækkaður 1. janúar sl. Skýringuna er að finna í hærra lyfjaverði en á síðari hluta ársins 2001 hækkaði lyfjaverðið vegna gengisfalls krónunnar. Verðhækkunin lendir að stærstum hluta á Tryggingastofnun ríkisins, þar sem sjúklingur er með fast greiðsluþak, óháð verði lyfsins.

Ekki er unnt að finna meðallyfjakostnað á ári fyrir einstaka hópa þar sem Tryggingastofnun er ekki heimilt að vinna upplýsingar á kennitölur úr lyfjagagnagrunninum.

Lyfjagagnagrunnur Tryggingastofnunar fer sífellt stækkandi. Daglega fara í gegnum lyfjaeftirlitskerfi stofnunarinnar rúmlega 5.000 færslur sem fara í grunninn. Uppbygging grunnsins og tenging apóteka við hann hefur tekið nokkur ár og gengur rekstur kerfisins orðið vel. Til þess að fá tölfræðilegar upplýsingar úr gagnagrunni sem þessum þarf að vinna mikla forvinnu, bæði við flokkun upplýsinga og forritun við staðlaðar fyrirspurnir. Vinna sem þessi er tímafrek og verður að mestu leyti aðeins unnin af sérfræðingum utan Tryggingastofnunar. Til að mynda kostaði það stofnunina 300.000 kr. í aðkeyptri vinnu að nálgast þær upplýsingar sem hér eru birtar.

Það þarf vart að ítreka mikilvægi þess fyrir heilbrigðisyfirvöld að fá nánari upplýsingar um lyfjakostnað Tryggingastofnunar ríkisins áður en ákvarðanir eru teknar um breytingar, ekki síður en að hafa möguleika á að meta áhrif breytinganna. Það er þó verulegur galli á þessari gagnasöfnun að ekki hefur fengist leyfi til að dulkóða sömu kennitöluna alltaf eins þannig að hægt sé að fá nánari upplýsingar um lyfjanotkun og kostnað einstakra sjúklingahópa.

Næsta skref stofnunarinnar varðandi lyfjagagnagrunninn er að gera hann notandahæfan, þannig að hægt verði að svara fyrirspurnum úr grunninum á skömmum tíma.

Hv. þm. spyr einnig hversu mikinn afslátt lífeyrisþegar fá að meðaltali úr lyfjaverslunum.

Því er til að svara að slíkur afsláttur, ef einhver er, er alfarið ákvarðaður af lyfjaverslunum sjálfum. Slíkar upplýsingar liggja því ekki fyrir í heilbrrn. Hins vegar hefur komið fram, í könnunum sem birtar hafa verið í fjölmiðlum, að umræddur afsláttur er mjög breytilegur á hverjum tíma og hvergi nærri sá sami á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni.

Ég vona, herra forseti, að þetta, með þeim fyrirvörum sem ég hef haft um upplýsingaöflun, svari að einhverju leyti spurningum hv. þm.