Heyrn skólabarna

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 15:54:00 (7662)

2002-04-17 15:54:00# 127. lþ. 121.5 fundur 695. mál: #A heyrn skólabarna# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[15:54]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Til að svara þessari spurningu var leitað upplýsinga hjá Heyrnar- og talmeinastöðinni og frá íslenskum yfirlækni heyrnardeildar í Lundi í Svíþjóð við það að undirbúa þetta svar.

Vandasamt er að meta hve stór hluti þeirra er sem hafa heyrnardeyfu eða eiga erfitt með að nýta sér til fulls almenna kennslu í grunnskólun landsins. Til að svara því þyrfti að gera allítarlega könnun á umfangi vandans en slíkt hefur ekki verið gert. En nálgast má svarið með því að skoða ýmsar tölur sem geta gefið góðar vísbendingar.

Svo virðist sem tíðni alvarlegrar heyrnarskerðingar nýfæddra sé svipuð og í flestum nágrannalöndum okkar, eða um 1,5--2 börn af hverjum þúsund fæddum börnum. Það þýðir að 8--9 börn með verulega heyrnarskerðingu fæðast hér á ári hverju, en að sjálfsögðu sveiflast þessi tala nokkuð milli ára. Hjá um 10--20% þessara barna hrakar heyrninni er árin líða. Mjög mikilvægt er að þau börn finnist sem fyrst svo koma megi að viðeigandi meðferð eða stuðningi.

Hér á landi eru nýfædd börn sem talin eru í áhættuhópi skoðuð sérstaklega fljótlega eftir fæðingu. Þessi skimun er samstarfsverkefni Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar og fæðingardeildar Landspítala -- háskólasjúkrahúss. Starfsfólk fæðingardeildar flokkar börn eftir áhættu, en starfsmenn Heyrnar- og talmeinastöðvar mæla heyrn barnanna. Þessi skimun nær þó aðeins til hluta fæddra barna en áform eru uppi um að efla hana. Tilraunir eru nú gerðar með skimun á öllum nýfæddum börnum, t.d. í hluta Stokkhólms og víðar í Svíþjóð og þykja þær tilraunir lofa góðu.

Heildarfjöldi barna á landinu sem eru með heyrnartæki, eitt tæki eða tvö, eru um 130 börn. Þar af eru um 16 börn á forskólaaldri, þ.e. fædd 1996 og yngri og falla því utan við þann ramma sem hér er til skoðunar. Um 19 börn stunda nú nám í Vesturhlíðarskóla, sem er skóli fyrir heyrnarlaus og alvarlega heyrnarskert börn. Þau börn fá sérhæfða kennslu og nýta sér lítið sem ekkert hið almenna skólakerfi. Því er hér um að ræða 95 börn með heyrnartæki, eitt tæki eða tvö, sem ganga í almenna grunnskóla. Samkvæmt upplýsingum Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar geta aðeins fá þeirra, eða um tíu börn, flokkast með væga heyrnarskerðingu. Þessi flokkun er að sjálfsögðu ekki mjög nákvæm.

Því munu vera um 85 börn á landinu öllu á grunnskólaaldri sem búa við töluverða heyrnarskerðingu og stunda nám í grunnskólum landsins. Um fjórðungur til þriðjungur barnanna býr utan höfuðborgarsvæðisins. Þessi börn þurfa öll á einhvers konar aðstoð sérfræðinga að halda og það þarf að fylgjast vel með þeim. Þörf fyrir stuðninginn eykst eftir því sem ofar dregur í grunnskóla og mikilvægt er að þau börn, foreldrar og aðstandendur fái faglegan stuðning við hæfi.

Gera verður ráð fyrir að öll þessi börn eigi í vandkvæðum með að nýta sér til fulls almenna kennslu eins og hún er veitt í grunnskólum, en þó er að sjálfsögðu misjafnt hve miklir erfiðleikarnir eru.

Með lögum sem samþykkt voru á Alþingi um miðjan desember og tóku þegar gildi var hlutverk Heyrnar- og talmeinastöðvarinnar endurskilgreint. Stofnuninni ber nú að halda saman upplýsingum um alla þá sem eru heyrnarskertir, heyrnarlausir eða eru með talmein. Nú er verið að endurskipuleggja tölvukerfi stofnunarinnar en að því loknu getur hún betur sinnt því hlutverki sínu og svör við spurningum eins og þeirri er hér er svarað verða aðgengilegri.

Þá ber stofnuninni einnig samkvæmt 2. mgr. 37. gr. sömu laga að sjá um heyrnarmælingar, greiningu og meðferð á heyrnar- og talmeinum, ásamt ráðgjöf, þjálfun og endurhæfingu vegna þeirra.

Við yfirstandandi endurskipulagningu stofnunarinnar opnast væntanlega möguleikar á að sinna þessum þætti betur en verið hefur og mun það ekki síst nýtast börnum sem búa við skerðingu á þessu sviði.

Þess skal getið að börn hafa forgang að þjónustu Heyrnar- og talmeinastöðvar við mælingar, úthlutun tækja og fleira og svo mun verða áfram.

Ég vænti þess að þessar upplýsingar hafi svarað að einhverju leyti spurningu hv. þm.