Bifreiðakaupastyrkir

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:03:56 (7667)

2002-04-17 18:03:56# 127. lþ. 121.6 fundur 703. mál: #A bifreiðakaupastyrkir# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:03]

Heilbrigðisráðherra (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Hv. 15. þm. Reykv. spyr hvort uppi séu áform um að endurskoða reglur um bifreiðakaupastyrki til fatlaðra. Svarið er já. Um nokkurt skeið hefur verið unnið að því í heilbr.- og trmrn. að endurskoða reglur um bifreiðakaupastyrki.

Þann 25. jan. á síðasta ári ákvað heilbr.- og trmrh. að skipa nefnd til að endurskoða lög, reglugerðir og vinnureglur varðandi bifreiðamál hreyfihamlaðra. Sérstaklega var nefndinni ætlað að athuga hvort lög og reglugerðir endurspegli nægjanlega þau markmið að gefa hreyfihömluðum tækifæri til að eignast nýjar eða nýlegar bifreiðar ásamt aðstoð við að reka þær. Nefndin var skipuð tveim fulltrúum Öryrkjabandalagsins, tveim fulltrúum Sjálfsbjargar og fulltrúa ráðherra sem jafnframt var formaður. Hún skilaði ítarlegum tillögum og áliti þann 25. apríl á síðasta ári sem hefur síðan verið í áframhaldandi vinnslu innan ráðuneytisins. Stefnt er að því að nýjar reglur taki gildi um nk. áramót og að næsta úthlutun byggist á þeim.

Helstu breytingar sem horft er til með nýjum reglum er að leggja niður lánveitingar til bifreiðakaupa á vegum Tryggingastofnunar en hækka í stað þess upphæðir bifreiðastyrkja og fjölga þeim nokkuð. Afgreiðslunefnd verður færð inn til Tryggingastofnunar ríkisins og skipuð af forstjóra í stað ráðherra. Aldur þeirra sem hafa rétt til að sækja um styrk verður væntanlega hækkaður úr 70 í 75 ár, eins og var hér áður fyrr, en aldraðir hafa einkum lagt á það áherslu að aldursmarkið verði aftur fært til fyrra horfs. Á Norðurlöndum gilda nokkuð mismunandi reglur í þessu tilliti, Norðmenn halda sig við 70 ár en Svíar fara ekki yfir eftirlaunamörkin sem eru 65 ár hjá þeim.

Bifreiðastyrkir verða veittir, eins og verið hefur, til fjögurra ára og skapast þá fyrst réttur til að sækja um á nýjan leik. Þetta er mun rýmri réttur en annars staðar á Norðurlöndunum en í stað þess má segja að einungis helmingur umsækjenda hefur fengið styrk í hvert sinn og einhverjir lenda því í þeirri stöðu að þurfa að bíða um sinn. Einnig er nauðsynlegt að hafa þessa stuttu fresti þegar fólki er gefinn kostur á að kaupa eldri bifreiðar sem ganga fljótar úr sér.

Hugtakið ,,umferðarhömlun`` hefur komið til álita sem betra hugtak en hugtakið ,,hreyfihömlun`` þegar ígrundað er hverjir koma til greina sem réttbærir aðilar. Ýmsir sjúkdómar eins og hjartveiki, lungnaþemba o.fl. geta orsakað að einstaklingur er ekki frekar ferðafær en sá sem hefur misst fótlegg en þarf engu að síður að komast ferða sinna. Það sama má segja t.d. um blinda einstaklinga. Þessi tilfelli þarf að skilgreina mjög nákvæmlega til að ekki leiki vafi á því hverjir koma til greina til veitingar á bifreiðastyrk. Niðurstaðan verður sennilega sú að læknadeild Tryggingastofnunar verður falið að leggja fram skýr skilaboð hvað þetta snertir.

Þar sem allflestir umsækjendur eru hreyfihamlaðir og þegar á skrá hjá Tryggingastofnun sem slíkir verður gert ráð fyrir því að þessir aðilar þurfi ekki lengur að gera grein fyrir hreyfihömlun sinni með því að láta vottorð fylgja umsókn. Það má því sleppa öllum vottorðum nema í þeim tilfellum að umsækjandi hafi ástæðu til að ætla að hreyfihömlun hans sé ekki kunn hjá læknadeild eða þá svo lítt kunn að nýtt vottorð geti leitt til hærri styrks. Svo er sennilega í fæstum tilfellum en möguleiki þó.

Meðferð bifreiðastyrkja og rekstrarstyrkja, þ.e. hinn svokallaði bensínstyrkur, verður nú á einni hendi í Tryggingastofnun og meðferð öll gerð einfaldari. Gert verður ráð fyrir því að aðgengi að styrkjum verði gert mun frjálslegra og hægt verði að sækja um bifreiðastyrki allt árið í stað einu sinni á ári nú, og að veiting styrkjanna fari fram t.d. fjórum sinnum á ári.

Herra forseti. Tillögur að nýrri reglugerð um bifreiðastyrki munu verða tilbúnar til setningar seinna á árinu. Vera má að nauðsynlegt reynist að breyta lagatexta í því sambandi en það mun þá gerast í upphafi næsta þings. Það er von mín að nýtt fyrirkomulag bifreiðastyrkja verði hreyfihömluðum heilladrjúgt til framtíðar.

Ég vona að þetta hafi svarað sem mestu af fyrirspurnum hv. þingmanns.