Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:29:45 (7676)

2002-04-17 18:29:45# 127. lþ. 121.8 fundur 643. mál: #A sjálfbær þróun í íslensku samfélagi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi KolH
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:29]

Fyrirspyrjandi (Kolbrún Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég er nokkuð hissa á að heyra hæstv. umhvrh. lýsa því hér yfir að í byrjun mars hafi verið send út endurnýjuð drög til þeirra sem lýstu áhuga á því að taka þátt í þessari vinnu og að 12. apríl hafi það fólk verið kallað saman til skrafs og ráðagerða. Ég veit ekki betur en að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafi lýst sig reiðubúna til að taka þátt í þessari vinnu en mér hefur ekki borist fregn af því að til okkar hafi verið leitað með það að mæta á fund 12. apríl eða yfir höfuð að taka frekari þátt í þessari vinnu. Mér þætti því vænt um að fá að sjá listann yfir það fólk eða þau samtök sem hafa fengið drögin. Það kann vel að vera að bréfið hafi borist þótt það hafi ekki borist til mín og gleymst hafi að láta mig vita af því. En mér þætti alltént vænt um að fá þennan lista.

Varðandi hins vegar samanburðinn við áætlun um sjálfbær Norðurlönd er auðvitað alveg ljóst að þó að litið sé að miklu leyti til sameiginlegra verkefna Norðurlandanna er alveg eðlilegt að Íslendingar geri þá kröfu til sinna stjórnvalda að þau taki mið af þótt ekki væri nema bara kaflaskiptingu sem væri sambærileg við áætlunina sem Norðurlöndin gera. Og þar vil ég t.d. vísa til þess að í drögunum sem dreift var á umhverfisþinginu í janúar fyrir tæplega einu og hálfu ári er t.d. enginn kafli um samgöngur sem ég tel að væri alveg lífsnauðsynlegt --- og þá gengur hæstv. samgrh. í salinn --- ég held að það væri alveg lífsnauðsynlegt að hafa kafla um samgöngur í stefnumörkun af þessu tagi.

Ég er jafnframt þeirrar skoðunar að ákveðnir þættir í þessum drögum hafi verið túlkaðir mjög þröngt og ég ítreka að Vinstri hreyfingin -- grænt framboð hafði mjög margt við þetta að athuga þannig að ég tel það alveg einsýnt að þeir sem hafa lagt þessu verkefni eitthvert lið og sagst vilja vinna að því áfram eiga að sjálfsögðu að fá aðkomu að því. En hæstv. ráðherra hefur náttúrlega ekki svarað neinu um það hvenær við fáum að sjá nýja stefnumörkun því að það er orðið mjög brýnt að við fáum hana hingað.