Sjálfbær þróun í íslensku samfélagi

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:31:58 (7677)

2002-04-17 18:31:58# 127. lþ. 121.8 fundur 643. mál: #A sjálfbær þróun í íslensku samfélagi# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:31]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Það er ekki alveg rétt að ég hafi ekki sagt hvenær við fáum að sjá nýja stefnumörkun. Í svari mínu kom fram að við erum að vinna að því að klára hana fyrir Jóhannesarborgarfundinn í haust, í lok ágúst, þannig að við kappkostum að reyna að klára þessa áætlun fyrir þann tíma. Ég get hins vegar ekki upplýst á þessari stundu nákvæmlega hvaða dag við gerum það, það er ekki endanlega fyrirséð.

Varðandi þá sem sendu inn athugasemdir --- samkvæmt mínum upplýsingum úr ráðuneytinu voru sem sagt send út drög nr. 2 fyrir stuttu, í byrjun mars, til þeirra sem sendu inn athugasemdir þannig að þá hefði Vinstri hreyfingin -- grænt framboð átt að hafa fengið þann pakka. Ég þarf að láta athuga hvort eitthvað hefur þar misfarist. Þetta var sent til þeirra sem sendu inn athugasemdir á sínum tíma sem er auðvitað eðlilegt, það er fólkið sem hefur áhuga á að taka þátt í þessu starfi, og til frjálsra félagasamtaka.

Samráðsfundur var svo haldinn með þessum aðilum. Hér er reyndar ekki tilgreint hverjir ,,þessir aðilar`` eru, hvort það eru e.t.v. bara frjálsu félagasamtökin, en ég skil það svo miðað við upplýsingarnar sem ég hef úr ráðuneytinu að það séu þeir sem hafi sent inn athugasemdir. Ég tel eðlilegt í ljósi þeirra upplýsinga sem fram koma hjá hv. þm. Kolbrúnu Halldórsdóttur að ég fari yfir það í ráðuneytinu hvort einhverjir sem sendu inn athugasemdir hafi ekki verið á þessum lista. Ég tek undir það að auðvitað eiga þeir sem sýna þessu áhuga og hafa burði í sér til að koma með ábendingar að fá að taka þátt í þessari stefnumótun þó að menn séu svo ekki endilega sammála að lokum um hvað fer inn og hvað ekki.