Réttindi Norðurlandabúa

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:34:16 (7678)

2002-04-17 18:34:16# 127. lþ. 121.9 fundur 644. mál: #A réttindi Norðurlandabúa# fsp. (til munnl.) frá samstrh., Fyrirspyrjandi RG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:34]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Virðulegi forseti. Ráðherranefnd Norðurlandaráðs fékk Ole Norrback sendiherra og fyrrverandi ráðherra til að vinna skýrslu um réttindi Norðurlandabúa. Þegar áfangaskýrsla var kynnt í vetur vakti hún mikla athygli þar sem í ljós kom að réttindi Norðurlandabúa sem við töldum að væru mjög lík í löndunum eða tryggð réttindi voru afar misjöfn eftir búsetu.

Í tengslum við þemaráðstefnu Norðurlandaráðs hér í Reykjavík um helgina voru lokaniðurstöður kynntar ásamt hugmyndum um aðgerðir til úrbóta. Ég vil taka það sérstaklega fram að fram undan er meðferð skýrslu og tillagna af hálfu ráðherraráðs og Norðurlandaráðs en ég taldi fulla ástæðu til að inna hæstv. samstarfsráðherra Norðurlandaráðs eftir því hvaða þætti í skýrslu við hér á Íslandi þyrftum að taka til endurskoðunar og hvernig unnið verði úr niðurstöðum skýrslunnar.

Mikill munur er á skattlagningu í löndunum, á velferðarkerfinu, einkum varðandi ellilífeyri og stefnu í fjölskyldu- og menntamálum, en jafnframt er talað um framkvæmd hjá fyrirtækjum svo sem eins og háan símakostnað á sumum svæðum og flókna bankaþjónustu. Á mörgum þeim sviðum sem ég hef nefnt má rekja mismun til ólíkrar pólitískrar stefnu í löndunum. Í öðrum tilfellum hefur norrænum samningum og ákvörðunum ekki verið fylgt eftir í aðildarlöndunum og á sjálfsstjórnarsvæðunum. Þá gerist það að yfirlýst réttindi sem fólk telur sig hafa við búsetuflutning milli landa reynist ekki til staðar. Fróðlegar upplýsingar þar að lútandi hafa komið frá gagnabankanum ,,Halló Norðurlönd`` en þar hafa yfir 800 fyrirspurnir verið bornar upp.

Nokkur dæmi úr skýrslunni langar mig að nefna. Nemendur missa rétt til námslána til framhaldsnáms þegar um er að ræða búsetu á skólaárinu í öðru landi. Hvorki land ríkisfangsins né búsetulandið veitir námslánarétt. Náms- og starfsréttindi frá einu landi eru ekki virt í öðru. Ellilífeyrir, greiddur einstaklingi búsettum í öðru landi, er skattaður í báðum löndunum, atvinnuleysisbætur fást ekki greiddar við flutning frá einu landi til annars. Íslendingur, einstætt foreldri með tvö börn, flutti til Noregs í níu mánuði og fékk engar barnabætur af því að viðkomandi taldist brottflutt frá Íslandi en krafist var eins árs dvalar í dvalarlandinu. Fólk þarf að bíða margar vikur í sumum löndum eftir að stofna bankareikning eða greiðslukort eða annað sem kallar á kennitölu.

Í skýrslunni segir að allt of lítil athygli hafi beinst að vandamálum sem tengjast norrænum samningum, aðallega vegna þess að miðstöðvar stjórnsýslu Norðurlandanna hafa ekki séð vandamál í tengslum við þá, eða þekkingu á þeim skortir. Áherslan á Evrópusambandið er sögð annar áhrifaþáttur.

Það sem ég hef áhuga á að heyra frá hæstv. samstarfsráðherra er hvað hún hefur skoðað í sambandi við skýrsluna og hvernig hún snýr að okkur hér uppi á Íslandi.