Réttindi Norðurlandabúa

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:40:09 (7680)

2002-04-17 18:40:09# 127. lþ. 121.9 fundur 644. mál: #A réttindi Norðurlandabúa# fsp. (til munnl.) frá samstrh., Fyrirspyrjandi RG
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:40]

Fyrirspyrjandi (Rannveig Guðmundsdóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra ágæt svör. Ég geri mér alveg grein fyrir því að það er ekki hægt að gefa afdráttarlausari svör á þessu stigi. Mér finnst hins vegar mjög mikilvægt að frá fyrstu stund fylgjum við skýrslunni eftir og áttum okkur á hvað þarf að gera.

Við verðum líka að muna að þrátt fyrir að hægt sé að gera samræmdar aðgerðir varðandi ýmislegt sem er fremur einfalt er samt mikill munur á félagslegum réttindum í löndunum. Hér á Íslandi eru t.d. minni réttindi í ýmsum málum er snúa að börnum, barnabætur eru lægri, orlofsdagar vegna veikinda barna fáir, hvers konar umönnunarstuðningur minni, og þetta breytist ekki með útfærslu á samningum Norðurlandaráðs nema ríkisstjórnir breyti um stefnu í þessum málum. Sama má segja um ýmis félagsleg réttindi sem eru mikilvæg fjölskylduúrræði, þar er fremur um pólitíska stefnu og aðgerðir á pólitískum grunni að ræða en samræmd norræn réttindi.

Svo er það hitt sem skýrslan bendir í mörgum tilfellum á sem hægt er að laga, almenn réttindi sem eiga að ganga í gildi í næsta landi þegar maður flytur, alveg eins og við búum við sömu réttindi þegar við flytjum á milli staða innan lands. Fyrir utan þau dæmi sem ég tilgreindi þegar í fyrri ræðu minni vega t.d. þungt náms- og starfsréttindi sem fólk hefur gengið út frá að gildi í næsta landi en reynast ekki gera það vegna þess að komulandið gerir kröfur um að ýmislegt sé alveg eins og hjá þeim heima fyrir.

En ég geri mér grein fyrir því að við verðum að hafa framhald á þessari umræðu í haust. Ég þakka ráðherranum aftur svörin og hvet til þess að við Íslendingar látum ekki okkar eftir liggja í að reyna að gera það sem hægt er, að þetta góða samstarf sem hefur haft svo góðan orðstír verði virkt.