Réttindi Norðurlandabúa

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:42:20 (7681)

2002-04-17 18:42:20# 127. lþ. 121.9 fundur 644. mál: #A réttindi Norðurlandabúa# fsp. (til munnl.) frá samstrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:42]

Umhverfisráðherra (Siv Friðleifsdóttir):

Virðulegur forseti. Ég er sammála því að við eigum að leggja okkar af mörkum til að viðhalda því góða samstarfi og þeim góðu samningum sem hafa ríkt milli landanna. En það er greinilega víða pottur brotinn eins og hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir skýrði áðan og tók upp úr skýrslunni ýmis dæmi. Ég veit þess dæmi að okkar fólk sem fer til Noregs hefur búið sér til einhvers konar einkaupplýsingabanka á netinu og fengið sendar inn ábendingar um hvernig fólk geti náð sér í réttindi sín --- þannig hefur fólk safnað slíku saman sjálft. Það sýnir manni auðvitað að það þarf að koma betri upplýsingum á framfæri, miðlægt, þannig að fólk þurfi ekki að standa í slíku eftir að hafa rekið sig á alls konar veggi.

Það er því mjög brýnt að við tökum á þessu máli. Það er of lítil þekking fyrir hendi í stjórnsýslunni. Úr því þarf að bæta og þjónustusíminn ,,Halló Norðurlönd`` er einn af lyklunum til að gera það.

Mig langar líka að koma inn á það hér að það sem kom mér svolítið á óvart í þessari skýrslu var að Evrópusamningarnir eru farnir að yfirtaka svo mikið þessa norrænu samninga. Sums staðar eru komnar nýjar reglur sem gilda á öllu ESB-svæðinu og taka gildi hér líka með EES-tilskipunum þannig að við erum auðvitað komin í alveg nýtt umhverfi eftir að þetta Evrópusamstarf varð svona virkt, og mikið og mikilvægt.