Bakkaflugvöllur

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 18:55:57 (7686)

2002-04-17 18:55:57# 127. lþ. 121.11 fundur 592. mál: #A Bakkaflugvöllur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., Fyrirspyrjandi LB (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[18:55]

Fyrirspyrjandi (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Eitt af einkennum samgöngumála á Íslandi er að samgöngur eru ríkisstyrktar. Breytir þar litlu hvort um flugferðir er að ræða innan lands eða ábyrgðir sem þarf að gangast í vegna trygginga, hvort um er að ræða rútuferðir, þ.e. styrkveitingar í formi sérleyfa eða hvort um er að ræða bein framlög eins og á milli Keflavíkurflugvallar og Reykjavíkur. Þetta á einnig við um siglingar sem eru styrktar hér innan lands og leigubifreiðar hafa sérleyfi o.s.frv. Þannig að einkenni á samgöngum á Íslandi er að þær eru ríkisstyrktar. Og í sjálfu sér þarf það ekkert að koma á óvart, a.m.k. hvað marga þá þætti varðar því að við búum, eins og við vitum öll, í strjálbýlu landi og það er ólíklegt að hægt væri að halda uppi þeim samgöngum eins og nú eru nema þær væru ríkisstyrktar á einn eða annan hátt.

Í Vestmannaeyjum hafa um nokkuð langt skeið verið miklar umræður um samgöngumál og spurninguna um hvernig þær megi bæta. Kaupstaður eins og Vestmannaeyjar sem er umlukinn sjó á allar hliðar er því mjög bundinn af því að samgöngur séu góðar. Undanfarin ár hefur verið byggð upp góð aðstaða á Bakka, búið er að malbika þar flugbraut og smám saman er verið að byggja þar upp aðstöðu sem skiptir Vestmannaeyinga mjög miklu máli. Hins vegar kemur það í veg fyrir að sá flugvöllur verði nýttur eins og hann ella gæti verið að engar beinar almenningssamgöngur eru milli Bakkaflugvallar og næstu þéttbýlisstaða eða höfuðborgarsvæðis.

Nú hef ég ekki nákvæma tölu um þá sem fara um Bakkaflugvöll en ef ég man rétt og hæstv. ráðherra gæti þá leiðrétt mig, þá fara um 20 þúsund manns eða svo um Bakkaflugvöll á hverju ári, jafnvel 30 þúsund, ég man þá tölu reyndar ekki nákvæmlega, en það er a.m.k. verulegur fjöldi. Sá fjöldi væri án efa meiri ef um almenningssamgöngur við Bakkaflugvöll og næstu þéttbýlisstaði væri að ræða eða höfuðborgarsvæðið.

Því er hér fyrirspurn sem ég beini til hæstv. samgrh., en hún hljóðar svo:

Er ráðherra reiðubúinn að beita sér fyrir því að almenningssamgöngur við Bakkaflugvöll verði styrktar sérstaklega?

Í ljósi þeirra orða sem ég hef látið frá mér fara er alveg ljóst að spurningin lýtur einvörðungu að því hvort pólitískur vilji sé til þess að styrkja almenningssamgöngur við Bakkaflugvöll eður ei og lýtur spurning mín einungis að því.