Bakkaflugvöllur

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:10:17 (7692)

2002-04-17 19:10:17# 127. lþ. 121.11 fundur 592. mál: #A Bakkaflugvöllur# fsp. (til munnl.) frá samgrh., samgrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:10]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Fyrst vil ég vekja athygli á því sem hv. þm. sagði undir lokin að leigubílar væru styrktir. Ég kannast ekki við að beinir styrkir séu þar á ferðinni.

En ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hér hefur orðið sem auðvitað vekur athygli á því stóra verkefni sem er skipulag almenningssamgangna og það styrkjakerfi sem þar er í gangi, og ég vakti meðal annars athygli á að 300--350 millj. eru veittar í beina styrki vegna samgangna við Vestmannaeyjar sem er afar mikilvægt að séu tryggar.

Það er ekki rétt hjá hv. fyrirspyrjanda, Lúðvíki Bergvinssyni, að ég telji ekki raunhæfan kost að styrkja flug á Bakkaflugvöll eða tengingu samgöngunetsins þangað, það kom ekki fram hjá mér. Ég tel að þetta þurfi að skoðast allt saman í samhengi og aðalatriðið er að valdir séu kostir sem þjóna íbúunum. Það er dálítið flókið að hafa almenningssamgönguþjónustu á Bakkaflugvöll vegna þess að ekki er áætlunarflug þangað. Ef þaðan væri áætlunarflug væri viðráðanlegra að eiga við það þannig að þetta þyrfti að skipuleggjast. En hvað um það, sá hópur sem ég sagði frá og á að skoða alla þætti samgöngumála fyrir Vestmannaeyjar mun að sjálfsögðu fara yfir þetta og ég vænti þess að sá hópur geri tillögur sem hægt verður að taka á.

Ég get ekki tekið undir það sem hv. þm. Sigríður Jóhannesdóttir sagði að siglingar væru svifaseinn kostur fyrir Vestmannaeyjar. Mér líður alltaf afskaplega vel að sigla með Herjólfi og tel að sú þjónusta sé komin í mjög gott lag núna, ekki síst eftir að ferðum með Herjólfi var fjölgað og þjónustan þar með aukin, þannig að við höfum skipulega verið að reyna að bæta þjónustuna með uppbyggingu á Bakkaflugvelli, með úrbótum á flugvellinum í Vestmannaeyjum og með meiri þjónustu Herjólfs. Það er eðlilegt.