Atvinnuleysistryggingasjóður

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:26:26 (7697)

2002-04-17 19:26:26# 127. lþ. 121.19 fundur 646. mál: #A Atvinnuleysistryggingasjóður# fsp. (til munnl.) frá félmrh., Fyrirspyrjandi MF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:26]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Um nokkurra ára skeið hefur verið uppi ágreiningur milli stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs og stjórnvalda. Að því er mér hefur skilist hefur fjmrn. ekki verið sammála stjórninni um fjárhagslegt sjálfstæði sjóðsins gagnvart ríkissjóði. Stjórn sjóðsins fór á síðasta ári fram á það við Sigurð Líndal, fyrrv. lagaprófessor, að hann ynni álitsgerð um réttarstöðu sjóðsins. Niðurstöður Sigurðar Líndals eru athyglisverðar en þar kemur fram að ýmsar athafnir og ákvarðanir stjórnvalda varðandi Atvinnuleysistryggingasjóð hafi ekki haft lagastoð og í sumum tilvikum sé jafnvel um hreint lögbrot að ræða, sbr. þegar ákvörðun var tekin um flutning sjóðsins úr B-hluta fjárlaga í A-hluta án vitundar stjórnar eða án samráðs við stjórn. Einnig kemur fram að framsetning í fjárlögum fyrir árið 2002 sé ekki í samræmi við ákvæði laga um atvinnuleysistryggingar og laga um tryggingagjald, sjóðurinn hafi sjálfstæðan tekjustofn og löggjöf hafi þróast í þá veru að sjóðurinn yrði óháður framlögum úr ríkissjóði. Þá telur Sigurður Líndal að Atvinnuleysistryggingasjóði verði helst jafnað til sjálfseignarstofnunar undir forræði Alþingis þar sem hvorki stjórnvöldum né stjórn sjóðsins sé heimilt að ráðstafa sjóðnum án takmarkana eins og væri ef hefðbundins skilnings eignarréttarlaga nyti við. Þar segir að óheimilt sé að taka hluta þess fjármagns, sem sjóðnum ber samkvæmt lögum, í ríkissjóð.

Hæstv. fjmrh. hefur verið ósammála þessum skilningi en sjóðurinn heyrir lögum samkvæmt undir hæstv. félmrh. og því er fyrirspurnum beint til hans. Hæstv. fjmrh. telur sjóðinn eign ríkisins. Stjórn sjóðsins hefur hins vegar komist að niðurstöðu sem er nær túlkun Sigurðar Líndals og um þetta hafa staðið deilur um nokkurn tíma. Í áliti Sigurðar Líndals segir m.a. að sjóðurinn sé ekki undirstofnun ráðuneyta, afskipti þeirra og ráðherra eigi fremur að vera bundin við samráð og eftirlit og ef ágreiningur rísi milli stjórnar sjóðsins og ráðherra sem ekki tekst að útkljá hljóti að koma í hlut Alþingis að taka á málinu.

Nú hefur um langan tíma verið um verulegan ágreining að ræða milli ríkisvaldsins annars vegar og stjórnar sjóðsins hins vegar. En sá ágreiningur hefur ekki verið ræddur hér á Alþingi. Sigurður Líndal skilaði álitsgerð sinni í desember 2001. Í umfjöllun í blaðinu ,,Af vettvangi vinnumála`` sem Vinnumálastofnun gefur út segir í lokaorðum að í kjölfar álits Sigurðar Líndals sé stefnt að því að reyna að leysa úr ágreiningsefnunum með ásættanlegum hætti.

Ég beini því svohljóðandi fyrirspurn til hæstv. ráðherra:

,,Hver eru viðbrögð ráðherra við þeirri niðurstöðu álitsgerðar Sigurðar Líndals um réttarstöðu Atvinnuleysistryggingasjóðs að ýmsar athafnir og ákvarðanir stjórnvalda varðandi sjóðinn hafi ekki lagastoð og séu jafnvel lögbrot?``