Tilnefning á heimsminjaskrá UNESCO

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:42:58 (7702)

2002-04-17 19:42:58# 127. lþ. 121.12 fundur 645. mál: #A tilnefning á heimsminjaskrá UNESCO# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:42]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Ég þakka hv. síðasta ræðumanni fyrir fsp. Svarið við fyrstu spurningunni hljóðar svo:

Samráðsnefnd um samning UNESCO frá 1972 um menningar- og náttúruarfleifð heimsins og þar með einnig um heimsminjaskrána hefur unnið að gerð kostnaðar- og verkáætlunar ásamt starfsmönnum Þjóðminjasafns og Náttúruverndar. Nefndin er skipuð Margréti Hallgrímsdóttur þjóðminjaverði, sem er formaður, Árna Bragasyni, forstöðumanni Náttúruverndar ríkisins, Sigurði Þráinssyni, fulltrúa umhvrn., og Þorgeiri Ólafssyni, fulltrúa menntmrn.

Skipuð hefur verið verkefnisstjórn með fulltrúum frá Fornleifavernd ríkisins, Þjóðminjasafni Íslands, Þingvallanefnd, Örnefnastofnun Íslands, Landmælingum Íslands, Náttúruvernd ríkisins, Náttúrufræðistofnun Íslands og þjóðgarðsverðinum í Skaftafelli. Verkefnisstjóri er Stefán Benediktsson, fyrrv. alþingismaður og starfsmaður Náttúruverndar. Stefnt er að því að kynna menntmrh. og umhvrh. kostnaðar- og verkáætlun fyrir lok aprílmánaðar.

Gera má ráð fyrir að kostnaður við umsóknirnar verði umtalsverður því þeim þurfa að fylgja nákvæmar náttúrulýsingar og gróðurkort, rökstuðningur fyrir vægi staðanna í menningarlegum eða náttúrufarslegum skilningi, greinargerð um réttarstöðu, ný landakort, loftljósmyndir, friðunar- og verndaráætlanir, fornleifaskrá og margt fleira.

Þær stofnanir sem að málinu koma munu leggja fram þau gögn sem fyrir liggja en ljóst er að mikið vantar af frumrannsóknum og gögnum til að uppfylla kröfur UNESCO. Kostnaður við gerð umsóknanna gæti legið á bilinu 10--20 millj. kr.

Þar sem ekki liggur fyrir með hvaða hætti verkefnið verður fjármagnað er ekki hægt á þessari stundu að segja hvort hægt verði að leggja fram umsóknirnar fyrir 1. febrúar á næsta ári en stefnt hefur verið að því.

Undirbúningur á yfirstandandi ári hefur verið fjármagnaður með framlögum menntmrn. og umhvrn., samtals 500 þús. kr.

Svar við annarri spurningu: ,,Hefur komið til athugunar að vinna að fleiri tilnefningum af Íslands hálfu?`` er svohljóðandi:

Ekki hafa komið fram neinar hugmyndir eða tillögur í þá veru enda varla tímabært fyrr en umsóknum vegna Þingvalla og Skaftafells hefur verið komið til UNESCO og fyrir liggur hvaða afgreiðslu umsóknirnar fá.

Þriðja spurningin er: ,,Hvernig er háttað samstarfi menntamálaráðuneytis og umhverfisráðuneytis varðandi þetta málefni?`` Svarið er svohljóðandi:

Samningur UNESCO frá 1972 um menningar- og náttúruarfleifð heimsins er á forræði menntmrn., og menntmrh. skipaði samstarfsnefndina um hana. Menntmrn. hefur haft fullt samráð við umhvrn. um undirbúning umsókna um íslenska staði á heimsminjaskrá.

Fjórða spurningin er: ,,Hvenær má vænta niðurstöðu í málinu?``

Svarið er: Ef umsókn berst til UNESCO fyrir 1. febrúar 2003 má búast við niðurstöðu síðla árs 2004. Margt bendir þó til þess að ekki verði hægt að ljúka gerð íslensku umsóknanna fyrir þann tíma og liggja þá niðurstöður væntanlega ekki fyrir fyrr en í árslok 2005.