Tilnefning á heimsminjaskrá UNESCO

Miðvikudaginn 17. apríl 2002, kl. 19:49:05 (7704)

2002-04-17 19:49:05# 127. lþ. 121.12 fundur 645. mál: #A tilnefning á heimsminjaskrá UNESCO# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 121. fundur, 127. lþ.

[19:49]

Menntamálaráðherra (Tómas Ingi Olrich):

Herra forseti. Það er vissulega rétt hjá hv. fyrirspyrjanda að umsóknin er yfirgripsmikil og sérstaklega þá heimildasöfnunin og rannsóknirnar sem fylgja. Verkefni af þessu tagi eru eðli síns vegna flókin og það þarf að mynda mikla síu því skráin er verðmæt, einmitt vegna þess að hún er sjaldgæf, og það kostar að koma slíkum stöðum inn á skrána vegna þess að hún er ætluð fágætum menningar- og náttúrufyrirbærum.

Í sambandi við Þingvelli er röksemdafærslan öðrum þræði byggð á sérstöðu náttúrunnar og umhverfisins en að mestu leyti er þetta þó tengt sögu og menningu, þróun lýðræðisins og íslenskri og evrópskri menningarsögu. Þar liggja rökin fyrir, þ.e. upplýsingarnar um mikilvægi staðarins. Þá umsókn ætti að vera hægt að vinna án mikils tilkostnaðar. Hins vegar eru náttúrlega margvíslegar aðrar heimildir og rannsóknargögn sem þarf að vinna og því held ég að ekki sé ofáætlað að reikna með þessum kostnaði sem er vissulega mjög mikill.