Þingsályktun um verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 10:40:51 (7719)

2002-04-18 10:40:51# 127. lþ. 122.91 fundur 517#B þingsályktun um verkaskiptingu hins opinbera og einkaaðila# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[10:40]

Ögmundur Jónasson:

Hæstv. forseti. Ég þakka þessi viðbrögð. Ég er alveg sammála því að lagatexti og texti þáltill. á að vera skýr. Texti þessarar þáltill. er ekki eins skýr og upphafleg þáltill. sem flutt var og ég vænti þess að þetta mál verði til lykta leitt í samræmi við þegar samþykktan vilja Alþingis. En aðeins svo að það komi fram fóru fram umræður um þetta mál áður en gengið var til atkvæða. Þar sagði ég m.a., með leyfi forseta:

,,Það sem fyrir okkur vakir er að fá málefnalega umræðu um þessi efni og leiða fram í dagsljósið rök og upplýsingar sem liggja fyrir hjá þeim þjóðum sem farið hafa út á braut einkavæðingar og einkaframkvæmdar. Þar er ekki síst vísað til ríkja á borð við Bretland og Nýja-Sjáland. Ég held að tillögutextinn misskiljist ekkert. Það er þetta sem vakir fyrir þeim sem að þessari tillögusmíð standa, að fá fram í dagsljósið upplýsingar um reynslu annarra þjóða af einkaframkvæmdinni og að sjálfsögðu okkar eigin.``

Þetta var sagt við umræðu um þetta mál. Auðvitað hefði maður óskað þess að hinir lærðu menn sem hæstv. forsrh. kvaddi sér til aðstoðar hefðu farið yfir hana. En, herra forseti, ég þakka fyrir þessi viðbrögð.