Þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:00:38 (7728)

2002-04-18 11:00:38# 127. lþ. 122.95 fundur 521#B þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd# (umræður utan dagskrár), EOK
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:00]

Einar Oddur Kristjánsson:

Herra forseti. Lengi hefur legið fyrir að matvælaverð á Íslandi er nokkuð hátt og hefur alla tíð verið það. Fyrst er náttúrlega til að taka sem allir vita að við búum á norðlægri slóð og ekkert óeðlilegt við það þó að landbúnaður á Íslandi sé ekki að öllu leyti samkeppnisfær við landbúnað í suðrænum ríkjum. Við höfum þó viljað standa að þeim landbúnaði og hefur verið nokkurn veginn samstaða um það.

Aðferðin til að knýja niður vöruverð er bara ein, þ.e. að tryggja samkeppni og það er eilíf vakt sem þarf að standa gagnvart því. Það er engin önnur aðferð til að tryggja lágt og sem allra lægst vöruverð en frjáls samkeppni, frjáls verðmyndun. Það er sá stígur sem við höfum verið að feta með mjög góðum árangri á Íslandi þó að sannarlega megi betur fara og við getum gert betur og ætlum okkur að gera betur.

Hins vegar er annar hlutur sem ræður þarna jafnmiklu og það er verðskyn og verðvitund almennings. Lengi bjuggum við við þá óstjórn efnahagsmála að verðvitund almennings var ekki til, menn gátu ekki myndað sér neina skoðun um hvað væri rétt verð og hvað væri rangt, þetta var allt í rugli eins og menn muna og þekkja.

Nú eru gleðidagar á Íslandi því að nú mælist algert logn, nú erum við algerlega á núlli. Við höfum ekki náð slíkum árangri lengi og það er mjög eftir því að keppa að við getum haldið því jafnvægi. Þetta jafnvægi er lykillinn að því að við getum haldið áfram að knýja niður verðlagið til þess að tryggja sem allra best lífskjör á Íslandi.