Þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:04:48 (7730)

2002-04-18 11:04:48# 127. lþ. 122.95 fundur 521#B þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd# (umræður utan dagskrár), ÍGP
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:04]

Ísólfur Gylfi Pálmason:

Herra forseti. Ég velti oft fyrir mér verðmyndun og framleiðsluferli vöru. Hvernig verður varan til og hvert er útsöluverð hennar? Hvernig verður t.d. einn lítri af mjólk til sem seldur er út úr búð? Hvernig verður einn lítri af sódavatni til sem seldur er út úr búð? Hvort framleiðsluferlið er einfaldara og hvers vegna er sódavatnið dýrara en mjólkin? Framleiðsluferlið er ósambærilegt. Hvað kostar að framleiða vöruna? Hvað fær framleiðandinn, hvað fá milliliðir, hvað fær kaupmaðurinn og hvað fá söluaðilarnir? Er eðlilegt að framleiðendur t.d. kartaflna fái um 30--40 kr. fyrir að framleiða hvert kíló, auk þess sem þeir hreinsa og setja kartöflurnar í neytendaumbúðir, sem síðan eru seldar á 100--150 kr. út úr búð? Eru þetta sanngjörn viðskipti? Er þetta sanngjörn álagning?

Ég hvet til þess að þeir aðilar sem hafa ríkjandi markaðsstöðu í dagvöruverslun taki upp verðmerkingar þar sem í stórum dráttum kemur fram verðmyndun vörunnar, hvað fær framleiðandinn, hvað fá milliliðir, hvað fær ríkið, hvað fær kaupmaðurinn? Verðmerking sem þessi er leikandi létt á tölvuöld. Munum að við framleiðum landbúnaðarvörur á Íslandi sem eru í sérflokki og eru með þeim bestu sem gerist í heiminum. Við eigum að sjálfsögðu að standa vörð um framleiðslu á íslenskum landbúnaðarafurðum og við eigum að taka upp verðmerkingar þar sem við sjáum hvað varan kostar í raun og veru.