Þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:09:07 (7732)

2002-04-18 11:09:07# 127. lþ. 122.95 fundur 521#B þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd# (umræður utan dagskrár), KÓ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:09]

Kjartan Ólafsson:

Herra forseti. Matvælaverð á Íslandi hefur lækkað sem hlutfall af ráðstöfunartekjum nú síðari ár. Matvælakostnaður heimilanna var hæsti útgjaldaliðurinn áður fyrr en hefur nú hin síðari ár lækkað þannig að það eru aðrir liðir nú í útgjöldum heimilanna sem eru hærri, svo sem húsnæðiskostnaður og almennur ferðakostnaður fjölskyldna.

Síðustu daga hafa dagblöðin verið að gera úttekt á mismunandi verði, bæði hér á landi og í Evrópu. Meðal annars kemur fram að verð á grænmeti er breytilegt milli tegunda hér á landi sem og í öðrum löndum. Ég vil benda mönnum að í slíkri úttekt verður að taka tillit til þess hvert upprunaland er hverju sinni. Það er einmitt þannig með ferskvörur eins og grænmeti og reyndar ávexti að sú vara kemur yfir háveturinn frá suðlægum löndum t.d. Kanaríeyjum. Síðan þegar fer að vora kemur hún frá meginlandi Spánar og loks kemur hún frá Hollandi. Það eru mismunandi verðtímabil á vorin eftir því hvaðan varan er og eftir því hvort hún er að koma ný á markað frá viðkomandi löndum hverju sinni. Þetta verða menn að athuga þegar slíkur samanburður er settur saman eins og gert hefur verið í dagblöðunum síðustu daga.

Það kemur m.a. fram að tómatar hafa hækkað á íslenskum markaði. Þeir eru væntanlega að koma frá Hollandi núna og eru dýrastir fyrst. Jafnframt kemur fram að gúrkur hafa lækkað verulega hér á landi á markaði.

Í dag framleiða íslenskir framleiðendur um 90% af gúrkum sem eru markaði hér á landi en einungis um 10% markaðshlutdeild á tómötum yfir þá mánuði sem kannanir dagblaða ná yfir þannig að við sjáum að aðferðir sem við erum að fara að taka upp á þessum markaði munu leiða til lægra verðs á umræddum vörum.