Þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:13:52 (7734)

2002-04-18 11:13:52# 127. lþ. 122.95 fundur 521#B þróun matvælaverðs á Íslandi í samanburði við önnur Norðurlönd# (umræður utan dagskrár), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:13]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Þetta er reginmisskilningur hjá hv. þm. Við getum gert allar þær breytingar sjálfir sem við viljum á reglum um umhverfi varðandi matvælainnflutning, þurfum ekki að fá fyrirmæli um það annars staðar frá. Það er misskilningur.

Varðandi Danina, þá er þetta ný úttekt Þjóðhagsstofnunar sem liggur fyrir um kaupmáttarþróunina þar. Ég vænti þess að hv. þm. sé ekki að draga ályktun Þjóðhagsstofnunar í efa hvað þetta varðar, menn hafa nú ekki viljað gera það. (Gripið fram í: Er þetta síðasta úttektin?) Þetta er ný úttekt Þjóðhagsstofnunar. Ég skal ekki segja hvort hún verður sú síðasta.

Varðandi aðra hluti þá er út af fyrir sig athyglisvert sem kom fram hjá hv. þm. Kjartani Ólafssyni. Það er auðvitað hárrétt hjá honum sem hann lýsti varðandi þróun á matvöruverðinu og árstíðabundnum ástæðum þess. En það er þó eitt gleðilegt sem varð núna þegar umræðan var um tómatana. Þá hættu menn að segja eins og var jafnan sagt: Ástæðurnar eru ofurtollarnir á Íslandi. Alltaf þegar slíkar breytingar urðu þá var alltaf sagt um leið: Þetta hefur ekkert með okkur að gera, ástæðan er ofurtollarnir á Íslandi. Núna skipta þeir ekki máli hvað þetta varðar en samt verður þessi hækkun.

Varðandi vínberin sem nefnd voru líka. Eftir að þau hækkuðu um 1100% í kringum jólin, þá var ég 4--5 dögum seinna staddur í London og fór þar inn í Mayfair-hverfið sem er eitt það allra dýrasta sem þar er, ég fór þar inn í einhverja sælkerabúð sem er sjálfsagt ein af þeim dýrari sem þar er og spurðist fyrir um vínber frá Suður-Afríku. Þeir áttu þau og þau kostuð 400 kr. kg út úr þeirri búð, en það var sem sagt 1.100 kr. kg hér. Það er engin skynsamleg skýring á þessu því aðalflugleiðin frá Suður-Afríku er að baki þegar menn koma til London þannig að það er margt sem er umhugsunarvert í þessum efnum.

En það eru þó gleðileg tíðindi líka. Það var gleðilegt að Finnur Árnason, forstjóri Hagkaupa, gaf þá yfirlýsingu í gær eða fyrradag að Hagkaup stefndu að því að lækka vöruverð á einum 700 tegundum um allt að 8%. Það er gleðilegt að þetta stóra fyrirtæki skuli taka við sér með þeim hætti.

Aðeins vegna þess að einn hv. þm. sagði að það væri broslegt að nefna til kaupmáttinn í þessum efnum. Ef það er svo að matvöruverð sé hærra hér og í Noregi vegna ESB og menn draga þá ályktun að ESB skipti máli í því sambandi, en kaupmátturinn er hærri hér og hefur vaxið miklu meira hér en í Danmörku og Svíþjóð, þá hlýtur að mega draga sams konar ályktun að það sé a.m.k. ekki vegna þess að við séum ekki í ESB.