Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 11:41:58 (7744)

2002-04-18 11:41:58# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[11:41]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Þessi umræða er nú að þróast í hefðbundinn farveg, ástaróð til dýrðar Evrópusambandinu og vill það stundum gleymast að þegar talað er um hag neytenda, þeir sem tala hæst um þetta vilja undirgangast það að Íslendingar fari að burðast með hið dýra skrifræðiskerfi Evrópusambandsins á bakinu.

Ég tek undir það sem hér hefur komið fram við umræðuna að að vissu leyti er óeðlilegt að þetta mál komi fram núna við 3. umr. málsins. Það er þó góðs viti að hæstv. fjmrh. vill að málið fari til gaumgæfilegrar skoðunar í efh.- og viðskn. þingsins þótt hann vilji að það gerist þar með hraði. Það er sjálfsagt að verða við þeirri beiðni, en við leggjum að sjálfsögðu áherslu á að málið verði vel skoðað --- óeðlileg vinnubrögð en ekki óvenjuleg vinnubrögð. Því eins og þingheimur veit er búið að setja færibönd ríkisstjórnarinnar í gang og nú er skóflað úr nefndunum frumvörpum, þáltill. og álitsgerðum sem koma úr stjórnarherbúðunum og ætlast er til að þetta verði allt saman afgreitt með miklum hraði á næstu dögum.

Í gærkvöldi var rifið úr efh.- og viðskn. frv. um ríkisábyrgð fyrir fyrirtækið deCODE. Ég bókaði þar mótmæli gegn þeim vinnubrögðum sem þar voru viðhöfð, því málið er á engan hátt fullrætt í nefndinni. Við höfum ekki fengið á borð okkar þau gögn sem duga til að taka vitiborna og upplýsta afstöðu til málsins. Þar er um að tefla ríkisábyrgð upp á 20 þús. millj. króna.

Þetta mál hér er hins vegar smærra í sniðum. Þar er þó einnig um að ræða umtalsverðar fjárupphæðir. Frumvarpið felur það í sér að tekjur ríkissjóðs munu rýrna um 150 milljónir eða þar um bil, ef ég tók rétt eftir staðhæfingum um það efni í ræðu hæstv. fjmrh. Að sjálfsögðu þarf að skoða öll þessi mál. Hér er vísað í jafnræði á markaði og reglur sem gilda á EES-svæðinu. Ég vil að vissu leyti taka undir það sjónarmið sem kom fram hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur að það er ekkert óeðlilegt að mismuna á jákvæðan hátt í þágu íslenskra menningar, til þess var leikurinn gerður á sínum tíma, þegar virðisaukaskattur á bókum var lækkaður, það var til að gera tvennt í senn, að styrkja undirstöður íslensku bókaforlaganna sem þá áttu í miklum erfiðleikum og einnig að stuðla að því að hér væri á boðstólum innlent, íslenskt menningarefni, að bókaútgáfan væri treyst. Undir það sjónarmið vil ég taka að svo verði áfram búið um hnútana í framtíðinni.

Ég vil að lokum segja þetta: Ég mun fyrir mitt leyti stuðla að því að málið fái hraða en vandaða skoðun engu að síður.