Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:09:22 (7755)

2002-04-18 12:09:22# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:09]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Mér þótti það merkilegt sem fram kom í ræðu hv. 9. þm. Reykv. að úrskurður ESA væri ekki í samræmi við þær reglur sem gilda í Evrópusambandinu. Mér þótti sú viðbót merkileg hjá formanni Samfylkingarinnar, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, þegar hann reyndi að réttlæta þetta með því að við hefðum ekki vitað um þessa hluti, ekki hugsað út í þá og þess vegna hefðum við ekki samið um að hafa sama rétt og Evrópusambandið þegar kemur að réttinum til að verja menningarverðmæti okkar og menningarlega hagsmuni. Svo er að skilja á formanni Samfylkingarinnar að honum finnist eðlilegt að við sættum okkur við að sitja við annað og verra borð í þessu efni heldur en þjóðir Evrópusambandsins.

Mér finnast þetta mjög merkilegar upplýsingar ef þær eru réttar, að úrskurður ESA sé ekki í samræmi við gildandi reglur innan Evrópusambandsins og þær leikreglur sem þar gilda, eins og fram kom hjá þessum tveim hv. þm. Samfylkingarinnar. Það er alveg greinilegt af ummælum þeirra að þeir sætta sig við þetta ástand.

Hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, sagði, ég hygg ég hafi náð því orðrétt: ESA hefur fellt sinn úrskurð og við verðum að undirgangast hann. Í hinu orðinu segir hann að þær þjóðir sem séu innan Evrópusambandsins þurfi ekki að undirgangast úrskurð af sama tagi.

Þetta er óþolandi og þetta hlýtur að verða að athuga sérstaklega. Það verður að gera nána grein fyrir því hvernig á slíku stendur. Og það eru þokkapiltar sem þannig haga sér í samstarfi við vinaþjóð, ef þetta er rétt.