Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:24:19 (7759)

2002-04-18 12:24:19# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:24]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég get alveg tekið undir það með formanni Samfylkingarinnar, hv. 7. þm. Reykv., Össuri Skarphéðinssyni, að auðvitað hlýtur maður að velta fyrir sér af hverju íslenskir embættismenn eru svona duglegir að reka okkur áfram til að samþykkja þessar ýmsu gerðir. Það má kannski líka segja að það væru þá mikil meðmæli með því að ganga í Evrópusambandið ef við gætum hagað okkur eins og Frakkar og þyrftum ekki að taka upp allar þessar gerðir. Mér skilst að Frakkar hafi ekki samþykkt einar 800 gerðir. Það hefði aldeilis verið munur fyrir okkur Íslendinga ef við hefðum losnað við þann óskapnað allan sem þessum 800 gerðum hefur fylgt.