Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:32:10 (7761)

2002-04-18 12:32:10# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:32]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er nú gaman að því núorðið að það er nánast sama hvaða mál kemur upp í þinginu þá spretta fulltrúar Samfylkingarinnar upp með miklum lofsöng um Evrópusambandið. En þetta er eiginlega dálítið dapurlegt á að hlusta, þetta er orðið svo fáránlegt. Þó segjast þeir ætla að taka ákvörðun um afstöðu til Evrópusambandsins einhvern tíma í haust. Þetta fók þarf ekki að taka neina ákvörðun í haust, lofsöngurinn er slíkur að maður hefur aldrei heyrt annað eins.

Hins vegar kom ég ekki upp til að vekja athygli á þessu, þetta sjá allir menn. En hv. þm. fór hins vegar með reginmisskilning hér og sýndi að hún þekkir ekki EES-samninginn þegar hún fjallaði um það að ef eitthvað væri sem væri hagstæðara gert síðar meir í Evrópusambandinu, þá gætum við ekki tekið það upp án þess að breyta EES-samningnum.

EES-samningurinn byggir á því, öfugt við sambandsaðild, að Alþingi hefur áfram sjálfstæða lagaheimild. Ef Alþingi sæi að eitthvert efni --- þetta er bara grundvallaratriði að þingmenn átti sig á og fari ekki með svona staðlausa stafi --- ef Alþingi sæi að atriði hefðu gerst í Evrópusambandinu sem væru hagfelldari en í EES-samningnum og giltu um Evrópusambandið þá mundi Alþingi einfaldlega breyta lögunum og laga umhverfi sitt að því. Evrópusambandið, ef það væri andstætt því, getur ekkert gert gagnvart þeim lögum annað en að grípa til mótvægisaðgerða, hefndaraðgerða á einhverjum sviðum. Það getur Evrópusambandið ekki gert ef verið er að breyta samningum eða lögum hér til samræmis við það sem gerst hefur í Evrópusambandinu. Hvernig ætti Evrópusambandið að geta farið út í hefndaraðgerðir --- Samfylkingin gengur út frá hefndaraðgerðum --- vegna þess að Íslendingar hefðu lagað löggjöf sína til hagsbóta fyrir sig umfram það sem stæði í EES-samningnum og hefði þegar verið gert í Evrópusambandinu? Þetta er slíkur reginmisskilningur, þetta er fyrsta blaðsíðan í bókinni og hv. þm. á ekki að láta taka sig á svona grundvallaratriðum.