Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:35:38 (7763)

2002-04-18 12:35:38# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:35]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er ákvörðun sem við tökum með okkar eigin lagasetningarvaldi sem við höldum enn þá af því að við erum í EES en ekki í Evrópusambandinu. Þetta er okkar eigin ákvörðun.

Ef það er svo að menn hafi breytt reglum eftir að EES-dómstóllinn hefur kveðið upp álit sitt, sem við erum ekki skyldug til að fara eftir, við getum haft lögin eins og við viljum, en við gætum lent í mótvægisaðgerðum. En þær mótvægisaðgerðir geta ekki komið til hafi Evrópusambandið síðar breytt reglum sínum á þá lund, eftir að EES-dómstóllinn hefur kveðið upp sinn dóm sem gerði það að verkum að þeir hefðu ekki stöðu til mótvægisaðgerða. Þetta er grundvallarmunurinn.

Og ef hv. þm. hefði lesið þá álitsgerð sem fjórir til fimm lögfræðingar rituðu í tilefni af inngöngu okkar í EES, þá liggur þetta algjörlega skýrt og ljóst fyrir. Sá sem var formaður þess hóps er reyndar sjálfur dómari í EES-dómstólnum. Þetta liggur því algjörlega skýrt og klárt fyrir. ESB hefur aðeins mótvægisreglur, við getum sett hvaða lög sem við viljum. Þeir geta hins vegar komið með mótvægisaðgerðir. En þeir geta að sjálfsögðu ekki farið í mótvægisaðgerðir --- það liggur í augum uppi og sér hvert barn --- gegn því að við færum lög í búning sem er hagfelldari en áður var, sem þeir hafa sjálfir breytt í þann búning. Þeir geta ekki farið í mótvægisaðgerðir út af því og mundu aldrei gera að sjálfsögðu.