Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:38:34 (7765)

2002-04-18 12:38:34# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, JB
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:38]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Frumvarp til laga um breytingar á lögum um virðisaukaskatt sem hér er til 3. umr. hefur vakið upp mjög sérstæða umræðu.

Sú brtt. sem hæstv. fjmrh. mælti fyrir í upphafi umræðunnar, sem felur í sér að þýddar bækur og erlendar bækur skuli vera með sama virðisaukaskatti og innlendar bækur, hefur vakið upp umræðu um stöðu okkar í alþjóðaheiminum. Og ein ástæðan sem hæstv. fjmrh. hafði m.a. sem röksemd fyrir því að þetta þyrfti að gerast var að við þyrftum að fullnægja dómsúrskurði frá ESA-dómstólnum. Að hann hefði dæmt svo að ólöglegt væri að hafa þarna á mismunun og með þessu værum við að brjóta samning okkar við Evrópska efnahagssvæðið og þess vegna mættum við ekki hafa þetta með þessum hætti.

Þær umræður sem síðan fóru fram í kjölfarið hafa leitt ýmislegt í ljós sem vekur upp spurningar. Í fyrsta lagi vil ég segja, herra forseti, að fyrir mér er það svo að þegar ég heyri hæstv. forsrh. lýsa stöðu okkar gagnvart samningnum við Evrópska efnahagssvæðið þá finnst mér það vera allt annar samningur en þegar ég heyri hæstv. utanrrh. lýsa þeim sama samningi. Hæstv. forsrh. lýsir því að að sjálfsögðu höfum við enn þá sjálfstætt löggjafarvald og getum ráðið því sem við mundum tapa ef við göngum í Evrópusambandið. Hæstv. utanrrh. segir aftur á móti að þetta sé bara orðið formsatriði og sé ekki í rauninni virkt í reynd, þetta sjálfstæða löggjafarvald á þeim sviðum sem lúta að því sem við höfum samið um við Evrópusambandið. Þannig að fyrir mér er þarna um tvenns konar gjörólíka túlkun að ræða, um tvo samninga að ræða, og væri fróðlegt og nauðsynlegt, virðulegi forseti, að hæstvirtir oddvitar ríkisstjórnarinnar mundu nú setjast niður og skýra þessi mál og ná niðurstöðu í því hver ræður hvar en ekki að vera að skjóta hér stöðugt í kross þannig að enginn botnar upp né niður í hver staðan er því það er ekki góð staða.

Til viðbótar kemur Samfylkingin inn í umræðuna um hvert málið á fætur öðru og snýr því upp í aðildarumræðu að Evrópusambandinu. Við vorum með utandagskrárumræðu í morgun þar sem verið var að fjalla um mismunandi matvælaverð. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir taldi að skoða bæri aðild að Evrópusambandinu til að rétta af matvælaverð á Íslandi, hvort sem var í Reykjavík, norður á Langanesi eða vestur á fjörðum. En umræðan snerist nú á hinn veginn, að kannski væru vandamálin hér innan lands sem við þyrftum að takast á við og ekki vera að hlaupa til útlanda til þess að hoppa frá þeim vanda sem okkur ber að taka á. Þar var Evrópusambandsumræðan dregin inn. Í þessu máli hér, um jöfnun á virðisaukaskatti á bókum, þá er Evrópusambandsumræðan líka dregin inn og skoðanir og sýn Samfylkingarinnar á hugsanlegri aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

Virðulegi forseti. Ef svo á að ganga að við hvert mál sem hér kemur fram þurfum við að fara í gegnum stefnu Samfylkingarinnar í Evrópumálum og heyra misvísandi skýringar og skoðanir hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh., sem því miður er ekki við hér en við þekkjum, á stöðu okkar gagnvart þeim samningum, þá mun nú þinghaldinu miða hægt. En kannski er nauðsynlegt að fara að taka slíka umræðu, kannski getum við ekki haldið áfram með mál á þingi fyrr en Samfylkingin er búin að gera það upp við sig hvort hún ætlar endanlega að sækja um aðild að Evrópusambandinu og ferill hennar sé þá orðinn klár, og við getum tekið á málum.

Ég hef áhyggjur af einu varðandi bækur og skatta á bókum sem hér er verið að tala um, það er sú staða sem uppi er að prentun bóka, það ég best veit, er að stórum hluta komin úr landi. Prentun og frágangur á bókum til útgáfu er kominn úr landi, ekki bara til Evrópu heldur suður um Asíu. Að mínu viti er þarna um verulega veikingu á okkar eigin sjálfstæði að ræða, að við skulum ekki vera í stakk búin eða að hér skuli ekki vera boðin sú staða að við getum haldið samkeppnisstöðu okkar við útgáfu bóka, að prentun bóka skuli vera nánast öll komin úr landi það ég best veit, og það er skaðleg þróun. Ég tel afar mikilvægt, herra forseti, að þegar við setjum lög á Alþingi að þá gætum við þess að rýra ekki stöðu okkar, sérstöðu okkar menningar sem eyþjóðar, sem samfélags, sem þjóðar, að við gætum þess í öllu írafárinu í að fylgja eftir alþjóðlegum tilskipunum að huga að stöðu okkar, huga að uppruna okkar, huga að sérstöðu okkar og þeim verðgildum sem við stöndum fyrir en ekki að falla máttlaus í strauminn fyrir kröfum erlendis frá um að uppfylla hinar og þessar tilskipanir, ég tala nú ekki um eins og heyrst hefur stundum að við ættum að ganga jafnvel á undan í fordæminu og vera á undan þeim að samþykkja hverja tilskipunina á fætur annarri til að sýna hinum Evrópuþjóðunum gott fordæmi. Við erum á hættulegri braut, herra forseti, og ástæða er til að skoða hvert mál gaumgæfilega og ljúka einhvern tíma þessari umræðu Samfylkingarinnar um aðild að Evrópusambandinu. (Gripið fram í: Áður en hún byrjar.) Áður en hún byrjar.