Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:49:25 (7768)

2002-04-18 12:49:25# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:49]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. nefndi spursmálið um lagasetningarvaldið. Meginbreytingin sem mundi verða við inngöngu í Evrópusambandið er að lagasetningarvaldið í samvinnumálefnum hyrfi og við værum undirsettir Evrópudómstólinn hvað það varðar. Það er stóra málið. Það þýðir ekkert að halda því fram að við höfum ekki lengur sjálfstætt lagasetningarvald því að ef menn halda því fram þá mundi Hæstiréttur Íslands dæma allt það sem gert hefur verið á grundvelli EES-samningsins ólöglegt sem bryti gegn stjórnarskránni. Það var meginniðurstaða allra þeirra lögfræðinga sem um þetta fjölluðu, bæði þeirra sem hlynntir voru samningnum eða töldu að EES-samningurinn rúmaðist innan stjórnarskrár, undir forustu Þórs Vilhjálmssonar, fyrrv. hæstaréttardómara, og hinna sem ég hygg hafa verið undir forustu Guðmundar S. Alfreðssonar, að ef samningurinn tæki af frítt lagasetningarvald Alþingis þá stæðist hann ekki stjórnarskrá. Guðmundur S. Alfreðsson lögfræðingur taldi að EES-samningurinn tæki af lagasetningarvaldið í svo miklum mæli að það stæðist ekki stjórnarskrá en hinir lögfræðingarnir héldu öðru fram og á því var byggt í þinginu.

Ef menn halda því fram núna að lagasetningarvaldið sé í raun horfið eru þeir að fikra sig á mjög hálli braut. Ef því yrði fylgt eftir fyrir dómstólum og þeirri skoðun haldið fram þá væru allar þær gerðir og öll þau lög sem hefðu verið ákveðin í tilefni af EES-samningnum dæmd ólög sem brytu í bága við stjórnarskrána. Þannig er ekki hægt að fara frjálslega með þetta efni, það liggur algerlega ljóst og klárt fyrir.

Eins og ég var að útskýra hér áðan þá er sá misskilningur uppi, barnalegi misskilningur, að ef eitthvað er búið að gera hagstæðara í ESB en er í okkar EES-samningi þá megum við ekki laga löggjöf okkar að því. Það getum við alltaf gert. Evrópudómstóllinn getur ekki dæmt það og ESB yrði að fara í gagnverkandi aðgerðir gagnvart okkur. Það geta þeir aldrei gert á grundvelli þess að við höfum fært lagabúninginn í það horf sem gildir í Evrópusambandinu. Því hélt Bryndís Hlöðversdóttir alþingismaður fram hér áðan --- þú hefur bara ekki hlustað, hv. þm.