Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 12:54:03 (7770)

2002-04-18 12:54:03# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[12:54]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var þannig þegar EES-samningurinn var samþykktur að meiri hluti framsóknarmanna í þingsal, 7 af 13, töldu að EES-samningurinn bryti í bága við stjórnarskrána. Ég man ekki til þess að hæstv. núv. utanrrh. hafi lýst því yfir enda sat hann hjá. Hann greiddi ekki atkvæði gegn samningnum. Hann var í hópi þeirra sem sátu hjá við gerð samningsins. En meiri hluti framsóknarmanna hélt því fram hér í þinginu að samningurinn bryti í bága við stjórnarskrána og þar vísuðu þeir ekki síst til álitsgerða lögfræðinga á borð við Guðmund S. Alfreðsson, þ.e. á þeim tíma. Þetta munum við sem hér sátum þá.

En niðurstaðan varð önnur. Meiri hluti Alþingis axlaði þá ábyrgð á grundvelli annarra lögfræðilegra álitsgerða að samningurinn bryti ekki í bága við stjórnarskrána. Forsendan fyrir því og haldreipið í því var að Alþingi hefði sjálfstætt löggjafarvald og gæti sett lög sem gengju þvert á EES-samninginn og tilskipanir Evrópusambandsins en gæti þá þurft að lúta því að Evrópusambandið gripi til mótvægisaðgerða.

Að koma hér, eins og gert var í dag, og halda því fram að Evrópusamabandið mundi grípa til mótvægisaðgerða ef við settum lög í samræmi við lög Evrópusambandsins er ótrúlegur barnaskapur og misskilningur og það var ég knúinn til að leiðrétta.