Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 13:52:49 (7778)

2002-04-18 13:52:49# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[13:52]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Ég hafði satt að segja ekki ætlað mér að taka þátt í þessari umræðu en get ekki orða bundist fyrst og síðast vegna afar sérkennilegrar ræðu hv. 1. þm. Norðurl. e. sem hér gengur í salinn. Menn eru nú vanir því að hann fari ýmsar krýsuvíkurleiðir að málum og horfi gjarnan um öxl og til fortíðar og stundum ansi langt til fortíðar þegar hann reynir að sanka að sér röksemdum til að koma á andstæðinga sína skotum. Hann brást ekki venju sinni hér í ræðustólnum í morgun og fór með einkar óviðfelldnum hætti aftur til fyrri hluta síðustu aldar og lagði þar Alþýðuflokkinn í einelti og fór með ósannindi um veigamikinn þátt í sjálfstæðisbaráttu okkar og í sögu stjórnmála okkar á Íslandi á síðustu öld.

Ég ætla einkum og sér í lagi að staldra við tvö atriði. Annars vegar þar sem hv. þm. fullyrti að Alþýðuflokkurinn hefði lagst gegn stofnun Hæstaréttar. Og hins vegar það að Alþýðuflokkurinn hefði lagst í víking gegn lýðveldisstofnun á Þingvöllum árið 1944 þann 17. júní. Þetta er svo sem ekkert ný saga og þetta hefur maður heyrt frá barnsaldri af hálfu hægri manna, af hálfu Sjálfstæðisflokksins. Þeir hafa gjarnan þegar þeim hefur þótt það henta reynt að ata jafnaðarmenn auri í því sambandi og reynt að gefa til kynna að jafnaðarmenn fyrr og síðar væru óalandi og óferjandi, væru óþjóðhollir.

Herra forseti. Það er augljóst mál að hér er aðeins reykurinn af réttunum. Hér er tónninn gefinn í þeirri umræðu sem í gang er farin og fram mun fara á næstu mánuðum og missirum um Evrópusambandið. Það á nefnilega að taka til hinna gömlu vopna, hina gömlu baráttuaðferða, að gefa til kynna að við sem viljum halda Íslandi í góðu sambandi við umheiminn og bestu vini okkar, vinaþjóðir okkar í Evrópu, séu hættulegir menn, séu að stefna sjálfstæði þjóðarinnar í stórhættu. Það hefur því svo sem fátt eitt breyst hér á hinu háa Alþingi, herra forseti, þótt ár og dagar hafi liðið, þótt áratugir hafi liðið. Sjálfstfl. og talsmenn hans á hinu háa Alþingi eru svo sannarlega samir við sig.

Og enda þótt ýmislegt hafi nú gerst á þessari, ja, meira en hálfu öld sem liðin er frá því Ísland fékk sjálfstæði frá Dönum, þá er ennþá hoggið í sama knérunn. Það sem hefur einkum og sér í lagi gerst er að okkur jafnaðarmönnum hefur tekist að sýna Sjálfstfl. fram á mikilvægi þess og nauðsyn þess að Ísland losaði sig úr þeim höftum, þeirri einangrun, sem landið bjó við, ég mundi segja á öldum áður og raunar á síðustu öld sömuleiðis. Það gerðum við fyrst í viðreisnarstjórninni og það gerðum við ekki síður þegar okkur tókst að fá Sjálfstfl. til liðs við okkur þegar að gerð EES-samningsins kom.

Af því hæstv. forsrh. hefur talað þannig að hann einn kunni stafrófið í þeirri bók, þeim samningi sem við undirgengumst árið 1991 við gerð EES-samningsins, þá er rétt að halda því til haga hvernig sá flokkur sem að vísu laut nú formennsku annars einstaklings en Davíðs Oddssonar í þeirri kosningabaráttu, hafði nú ýmislegt á hornum sér þegar kom að samvinnunni við Evrópu, þegar kom að hugsanlegri gerð nýs samnings við Evrópusambandið. Það var ekki fyrr en eftir þær kosningar 1991 sem Sjálfstfl. skilaði sér í hús og gat fallist á þá kröfu okkar alþýðuflokksmanna að gengið yrði til gerðar EES-samningsins, þess samnings sem Sjálfstfl. telur núna gull og gersemar, sem Sjálfstfl. telur núna alfa og omega þess að við Íslendingar getum yfirleitt verið þjóð með þau lífsgæði sem við gerum kröfu til og við höfum búið við. Ýmislegt breytist því á stuttri vegferð, herra forseti. En nauðsynlegt, bráðnauðsynlegt er að halda til haga grundvallaratriðum á borð við þessi.

Það er nefnilega ekki í fyrsta skiptið sem við jafnaðarmenn höfum haft forustu um að tengja hina íslensku þjóð, bæði á menningarlegan hátt og ekki síður viðskiptalegan, við umheiminn. Og það oft við hatramma andstöðu í þessum sal frá Sjálfstfl. þegar honum þykir henta fyrr og síðar, frá Framsfl. fyrr og síðar, en okkur hefur þrátt fyrir það mjakað í rétta átt, okkur hefur miðað fram á veg. Og út af fyrir sig þakklætisvert. Þetta tókst Alþýðuflokknum og okkur jafnaðarmönnum þrátt fyrir býsna lítinn þingstyrk með köflum. En góð mál fá framgang um síðir og það vissum við.

Það er vegna þessa, herra forseti, sem Samfylkingin og við jafnaðarmenn í Samfylkingunni teljum að nú sé sú stund runnin upp að við eigum að setja þau mál, stórmál, á dagskrá sem hér hafa verið talsvert til umræðu, nefnilega Evrópumálin. Og það er auðvitað ekki að undra að við þurfum að ryðja brautina í þeirri umræðu. Við höfum gert það áður, jafnaðarmenn, og erum vanir því og ætlum að halda því áfram.

[14:00]

Herra forseti. Í tengslum við Evrópusambandsumræðuna vil ég nefna tilraunir forustu ríkisstjórnarinnar, forustu Sjálfstfl. réttara sagt, til að villa um fyrir þjóðinni í þeirri umræðu og hvernig þær birtast okkur í fjölmiðlum og opinberri umræðu. Hæstv. forsrh. gerir sér ferð til Noregs til að eiga þar orðastað við prestinn Bondevik, kollega sinn, forsætisráðherra þar í landi, og lætur síðan í veðri vaka, fullyrðir raunar, við þarlenda fréttamenn að koma þurfi til stjórnarskrárbreytingar áður en Íslendingar geti gengið til viðræðna um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu, gera þurfi stjórnarskrárbreytingu áður en samningaviðræður um aðildarumsókn Íslendinga fari fram. Þetta er auðvitað fjarri öllu lagi. Þetta er svo fráleitt sem frekast getur verið. Ég bíð eftir því að forsrh. finni þessum orðum sínum stað og skjóti undir yfirlýsingar sínar einhverjum þeim stoðum sem hægt sé að taka á. Það hefur hann ekki gert.

Komi til þess í kjölfar allsherjaratkvæðagreiðslu innan lands að svona samningur, ef næðist, yrði samþykktur liggur vissulega ljóst fyrir að þá kæmi til kasta og atbeina Alþingis um að gera nauðsynlegar breytingar á stjórnarskrá. En að það að fara til aðildarviðræðna við Evrópusambandið kallaði eitt og sér á breytingar á stjórnarskrá er alveg ný lögfræði fyrir mér, og ég bið hæstv. forsrh. að útskýra fyrir mér hvernig hann kemst að þeirri niðurstöðu.

Herra forseti. Hv. þm. Halldór Blöndal sagði hér fyrr að Alþýðuflokkurinn hefði lagst gegn stofnun Hæstaréttar árið 1920. Lög um stofnun Hætaréttar voru samþykkt í febrúar 1919. Þá var einn þingmaður Alþýðuflokksins kjörinn á þing, Jörundur Brynjólfsson. Hann samþykkti þá löggjöf eins og raunar allur þingheimur. Fullyrðing hv. þingmanns er því röng.

Í annan stað er það auðvitað þekkt hverju mannsbarni á Íslandi hvernig mál gengu til í aðdraganda lýðveldisstofnunar á Þingvöllum 1944. Sannarlega voru uppi deilur milli svokallaðra hraðskilnaðarsinna og lögskilnaðarsinna um hvernig að ætti að standa. Ekki þarf að fara yfir það hér aftur. Málið snerist um það fyrst og síðast hver tímasetningin ætti að vera, hvort það væri eðlilegt og sjálfsagt í ljósi ástands heimsmála, í ljósi þess veruleika að herraþjóðin Danmörk var í herkví Þjóðverja, að lýsa yfir sjálfstæði strax eða hvort bíða ætti þess að hún yrði frjálsborin á nýjan leik áður en af sjálfstæðisyfirlýsingu okkar yrði. Áttum við að nýta það ákvæði sem samningur frá 1918 veitti okkur svigrúm til og halda til streitu þeim 25 ára samningi sem í honum fólst, eða bíða? Um þetta urðu nokkrar deilur. Niðurstaðan í þjóðaratkvæðagreiðslu varð hins vegar sú að þjóðin vildi taka af skarið og fylgja 25 ára ákvæðinu. Á hinu háa Alþingi urðu lyktir máls eins og þjóðin óskaði. Auðvitað var enginn ágreiningur um ákvörðunina sem tekin var og hefur aldrei verið síðan. Það jaðrar sannarlega við sögufölsun að halda því fram að Alþýðuflokkurinn hafi lagst gegn því að Ísland yrði sjálfstætt ríki og það sett hér í beint samhengi við þann litla eldshúsdag sem orðið hefur til um hugsanlega Evrópusambandsaðild.

Ég segi enn og aftur: Ég hef það á tilfinningunni, herra forseti, að þetta sé aðeins reykurinn af réttunum, hér sé aðeins tónninn sleginn. Mér kemur satt að segja á óvart að hann skuli berast frá gömlum samstarfsmönnum mínum í ríkisstjórn árin 1991--1995, mönnum sem stóðu að því að gera þennan ágæta EES-samning og stóðu í baráttu við framsóknarmenn á þingi þá þar sem þeir héldu nákvæmlega þessu sama fram, að með EES-samningnum færi landssala fram, að með EES-samningnum væri verið að selja ár og læki og dali og að hér mundu hrúgast inn stórgrósserar frá Evrópu og kaupa upp okkar fallega land. En það er augljóst mál að engu á að eira og í þetta farið ætlar hluti Sjálfstfl. greinilega að fara, og þá er bara að taka því.