Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 14:06:15 (7779)

2002-04-18 14:06:15# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[14:06]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. fór ekki nákvæmlega rétt með í máli sínu og Evrópuákafa, eins og getur kannski gerst þegar mikið liggur við. Það var reyndar ég sem leiddi flokkinn 1991 en ekki Þorsteinn Pálsson. Hv. þm. hefði átt að muna eftir kosningabaráttunni. Í henni lagðist ég aldrei gegn EES-samningnum. Þetta er því misminni hjá honum. Á hinn bóginn hafði Sjálfstfl. verið þeirrar skoðunar, ef ég man rétt, að kanna bæri möguleika á tvíhliða samningum. Það var áður en ég kom til þess að leiða flokkinn en ég leiddi hann í þessum kosningum.

Hv. þm. notaði orðalagið að ,,koma þurfi til stjórnarskrárbreytingar áður en Íslendingar geti gengið til viðræðna um hugsanlega aðild að Evrópusambandinu``. Þetta hugtak er ekki til og hann er því á villigötum. Til þess að fara í viðræður verður að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Það þýðir ekki það að fara þurfi í einhverjar viðræður til að breyta stjórnarskránni. Við verðum að sækja fyrst um aðild að Evrópusambandinu. Og það gerum við ekki nema með lögum héðan frá Alþingi um að samþykkja heimild til ríkisstjórnarinnar um að sækja um aðild að Evrópusambandinu.

Samkvæmt stjórnarskránni gengur aðild ekki upp. Halda menn að Alþingi mundi samþykkja að sækja um aðild að einhverri alþjóðlegri stofnun eða Evrópusambandinu ef það lægi fyrir að slík aðild væri ekki heimil samkvæmt stjórnarskránni? Þingmaðurinn var að rugla þegar hann sagði að auðvitað mættu menn fara í viðræður án þess að breyta stjórnarskrá. Þarna var meginmisskilningur á ferðinni hjá hv. þingmanni sem hann þarf auðvitað að leiðrétta.

Mér kemur á óvart að Samfylkingin tali alltaf um að þau ætli að móta stefnu og afstöðu til Evrópusambandsins einhvern tíma í haust en þau tala eins og menn í trúarbragðavíkingi nú þegar. Hvað ætla þeir að meta og ákveða í haust, þessir menn, sem eru löngu búnir að ákveða hvað þeir ætla að gera samkvæmt þessu? Fá nokkra ofstækisfulla Evrópusinna og starfsmenn Evrópusambandsins til að búa til handa sér bækur og segja: Við höfum rannsakað málið. Hvaða rannsóknir hafa þessir menn gert? Ekki nokkurn skapaðan hlut. Þetta er þeirra rökræða. Hún byggir bara á ofstækisfullum yfirlýsingum heittrúaðra manna.