Virðisaukaskattur

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 14:14:56 (7783)

2002-04-18 14:14:56# 127. lþ. 122.9 fundur 315. mál: #A virðisaukaskattur# (viðauki, niðurfelling gjalda, endurgreiðslur o.fl.) frv. 64/2002, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[14:14]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Vegna ummæla hv. þm. Guðmundar Árna Stefánssonar, hv. 6. þm. Reykn., er það rétt munað hjá honum að Jörundur Brynjólfsson greiddi á sínum tíma atkvæði með því að við Íslendingar stofnuðum Hæstarétt hér enda man hv. þm. að Jörundur Brynjólfsson hvarf síðan af þingi, kom svo á þing á nýjan leik sem framsóknarmaður.

En það sem ég vék að, og veit að hv. þm. man eftir, er að það var undandráttur í Alþýðublaðinu um það hvort við værum menn til þess að vera hér með íslenskan hæstarétt. Ég man ekki betur. Nú hef ég að vísu ekki tíma til að fletta þessu upp en við getum gert það í sameiningu, flett Alþýðublaðinu og athugað hvort þetta sé rétt munað eða ekki. Ég hygg að í annan stað muni hv. þm. m.a. eftir orðsendingum fyrrverandi formanns Alþýðuflokksins, Hannibals Valdimarssonar, í sambandi við stofnun lýðveldis 17. júní 1944 og hver afstaða hans var og hvernig ýmsir aðrir alþýðuflokksmenn drógu lappirnar í því máli, eins og ég kýs að orða það.

Í þriðja lagi vil ég minna hv. þm. á að formaður þingflokks Samfylkingarinnar, Bryndís Hlöðversdóttir, lýsti því yfir hér í ræðustól og líka í blaðaviðtali að það væri spurning um pólitískan vilja hvort menn legðu á næsta þingi fram tillögu um það að breyta stjórnarskránni í samræmi við það afsal sjálfstæðis sem í því fælist að gerast meðlimur í Evrópusambandinu. Það hefur komið fram hjá þessum hv. þingmanni hér og líka hjá hv. þm. Bryndísi Hlöðversdóttur að pólitískur vilji Samfylkingarinnar standi ekki til þess að flytja slíka tillögu á hausti komanda.