Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 14:33:00 (7789)

2002-04-18 14:33:00# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, Frsm. meiri hluta SAÞ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[14:33]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Sigríður A. Þórðardóttir) (andsvar):

Herra forseti. Við erum einfaldlega ósammála, hv. síðasti ræðumaður og sú sem hér talar, um að öll rök skorti fyrir því að leggja niður stofnunina. Það eru færð mjög gild rök fyrir því í greinargerð með frv.

Spurt var hvaða verkefni væri um að ræða og hvernig ætlunin væri að færa þessi verkefni Þjóðhagsstofnunar yfir til annarra aðila en fjmrn. og Hagstofunnar. Ég ætla að fara yfir það.

Í frv. er gert ráð fyrir að gerð þjóðhagsreikninga fari til Hagstofu og þar með allt sem varðar úrvinnslu og birtingu gagna, skýrslugerð, upplýsingagjöf og annað á því sviði. Í öðru lagi að gerð þjóðhagsspár og áætlana fari til efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytis. Í því felst m.a. gerð þjóðhagsspár í tengslum við framlagningu fjárlagafrv. og endurskoðun hennar á ársfjórðunsfresti líkt og verið hefur. Enn fremur verða þau haglíkön sem fyrir eru á Þjóðhagsstofnun vistuð á efnahagsskrifstofu.

Gerð ýmissa efnahagsskýrslna skiptist á milli Hagstofu og efnahagsskrifstofu í samræmi við fyrrnefnda verkaskiptingu, þ.e. skýrslur um ástand og horfur í efnahagsmálum færast almennt til efnahagsskrifstofu en gerð hagskýrslna um liðna tíð til Hagstofu. Gerð hagfræðilegra athugana og efnahagsskýrslna fyrir ríkisstjórn og alþjóðastofnanir lýtur svipuðum lögmálum hvað varðar verkaskiptingu milli Hagstofu og efnahagsskrifstofu.

Gert er ráð fyrir að upplýsingagjöf og skýrslugjöf fyrir Alþingi verði í meginatriðum sinnt af Seðlabanka, Hagstofu og efnahagsskrifstofu, auk viðkomandi ráðuneyta. Einnig má reikna með að aðrir aðilar, svo sem Hagfræðistofnun Háskólans og fleiri geti komið að verkefnum á þessu sviði. Sama fyrirkomulag getur í meginatriðum gilt um upplýsingagjöf og ýmsa hagfræðilega úrvinnslu fyrir aðila vinnumarkaðarins og auk þess verður leitast við að styrkja almenna upplýsingamiðlun um efnahagsmál, m.a. með því að gera aðgengileg öll helstu reiknilíkön og gagnasöfn sem notuð eru við fyrrgreind verkefni.