Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 14:39:08 (7792)

2002-04-18 14:39:08# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[14:39]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Eins og ég gat um við 1. umr. gladdist ég yfir því að leggja ætti niður stofnun, þangað til ég las umsögn fjmrn. um kostnaðinn fyrir ríkissjóð. Þar kom í ljós að ekkert sparast og nákvæmlega sami kostnaður verður áfram, skiptist í hlutföllunum 2/3 og 1/3, á milli Hagstofu Íslands og fjmrn. Auk þess kostar það 45--50 millj. að leggja niður stofnunina.

Það kemur heldur ekkert fram í umsögn hv. efh.- og viðskn. um þetta mál að einhvern tímann sparist eitthvað. Það er náttúrlega afskaplega erfitt að styðja svona lagað. Maður hélt að þegar stofnun væri lögð niður þá mundi eitthvað sparast en þetta virðist bara eiga að kosta peninga. Auk þess eiga svo einhverjir ótilgreindir aðilar, aðilar vinnumarkaðarins væntanlega, að fá styrk til að sinna þeim verkefnum. Það bætist þá líklega við.

Ég spyr hv. frsm. efh.- og viðskn. hvort það sé virkilega þannig að hvergi komi fram sparnaður í framtíðinni og hvort lagt hafi verið mat á að sá stofnkostnaður sem farið er út í skili sér í framtíðinni. Það hlýtur að vera. Þessi verkefni eru unnin víða og oft í tvígang og maður kynni að halda að með því að sameina þessa starfsemi annarri mundi koma fram einhver hagræðing þannig að kostnaður minnki. Það er afskaplega erfitt að styðja það að leggja niður stofnun þegar það aðeins kostar ríkissjóð peninga.