Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 17:26:59 (7800)

2002-04-18 17:26:59# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[17:26]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nú stendur það upp úr flestum sem tjáð hafa sig um þetta mál, ef ekki öllum, að æskilegt og nauðsynlegt sé að endurskoða þessa starfsemi og verkaskiptingu á milli þeirra sem sýsla með haggögnin og sinna efnahagsspám í þjóðfélaginu. Sú þáltill. sem ég stend fyrir hér ásamt hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni gerir ráð fyrir slíkri úttekt. Við teljum að á meðal þeirra kosta sem til álita koma sé að færa Þjóðhagsstofnun undir Alþingi. En við leggjum áherslu á að slík úttekt fari fram. Það hefur ekki verið gert í þessari vinnu. Það er settur niður vinnuhópur sem fær niðurstöðuna í veganesti. Hann á síðan að ræða leiðir til að komast að því marki. Okkur finnst þetta vera óvönduð vinnubrögð og þessu hafa starfsmenn Þjóðhagsstofnunar mótmælt. Þessu mótmæla þeir sem njóta þjónustu Þjóðhagsstofnunar. Ég held að það sé ekki ofsögum sagt að það er mjög mikil andstaða og óánægja með vinnubrögð ríkisstjórnarinnar í þessu efni og þá niðurstöðu sem hún er að reyna að keyra í gegnum þingið.