Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 17:29:52 (7802)

2002-04-18 17:29:52# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[17:29]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Ég er að svara þessum ásökunum sem fólust í ... (ÖS: Er forsrh. að bera af sér sakir?) Ég er að bera af mér sakir, já. Hv. þm. Össur Skarphéðinsson sagði hér, með leyfi forseta:

,,Hér er farið eftir duttlungum hæstv. forsrh. sem kom hingað og færði þinginu`` --- hvenær? --- ,,þær fréttir að það ætti að leggja niður stofnunina af því að honum hugnuðust ekki þeir spádómar sem hún lagði fram.`` --- Sagði ég það hér í þinginu? --- ,,Þetta er ekkert annað en hrein hefndaraðgerð, herra forseti, sem mun kosta íslenska ríkið á bilinu 50--100 millj. kr.``

Það er fullyrt að ég hafi komið hér í þingsalinn og sagt að leggja ætti niður þessa stofnun af því mér hugnist ekki spádómar þeirra. Það er bara fullyrt. Ég er með þetta skrifað eftir þingmanninum frá 10. apríl, það er nú ekki lengra síðan. Er nema von að mér sé misboðið?

Ég sagði nákvæmlega hvar ég hefði svarað þessu til í sjónvarpsviðtali við Kristin Hrafnsson fréttamann. Ég sagði jafnframt við þær aðstæður að þetta hefði verið undirbúið í ráðuneytinu fyrir mörgum, mörgum mánuðum að þetta stæði til. En að ég hafi komið og lýst því yfir því að mér líkaði ekki spá Þjóðhagsstofnunar og þess vegna ætti að leggja hana niður. Það er fullyrt að ég hafi gert það hér í þinginu. Ég held að maðurinn sem bar af sér sakir ætti að biðjast afsökunar.