Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 19:01:13 (7811)

2002-04-18 19:01:13# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[19:01]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ýmsir hafa gert því skóna að efnahagslegum upplýsingum frá fjmrn. mætti vart treysta á sama hátt og frá Þjóðhagsstofnun. Hugsum okkur nú að fjmrn. legði fram þjóðhagsspár eða þess háttar hluti við gerð einna fjárlaga. Síðan stæði ekki steinn yfir steini þegar næstu fjárlög yrðu lögð fram vegna þess að ráðuneytinu hefði mistekist í öllum sínum spám. Hvernig halda menn að það mundi virka fyrir fjmrn. eða viðkomandi fjmrh.? Ég hygg að engum fjmrh. dytti annað í hug en að leggja fram spár sem þeir tryðu á sjálfir, tryðu a.m.k. að væru unnar eftir bestu getu.

Ég hygg að með mér í ríkisstjórn hafi starfað einir 25 ráðherrar. Ýmsir þeirra eru núna í stjórnarandstöðu, til að mynda er einn hér í gættinni. Ég er viss um að þeim ráðherra, eða öðrum þeim ráðherrum sem með mér hafa verið, hefur aldrei dottið í hug að biðja embættismenn sína að setja ósannindi inn í svör til þingsins enda yrði það mikið alvörumál ef upp kæmist. Ráðherrann gæti ekki horft framan í sjálfan sig, hvað þá framan í þingheim, ef það kæmi fram. Menn skulu hafa hugfast að spurningar sem koma frá þinginu eru teknar mjög hátíðlega og alvarlega.

Það er ekki alltaf þægilegt að fá spurningar. Stundum bregður samt spyrjendum þegar þeir sjá svörin sem embættismenn hafa unnið að beiðni þeirra. Stundum græða nefnilega ráðherrarnir heilmikið á því að fá spurningar frá þingmönnum því jafnvel er tekið á hlutum sem ráðherrann hafði ekki spurt um sjálfur í sínum daglegu önnum og þá græðir hann á því að þingmenn leggja til að unnin séu svör fyrir þingheim.