Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 19:05:23 (7813)

2002-04-18 19:05:23# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, GE
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[19:05]

Gísli S. Einarsson:

Virðulegur forseti. Ég vil hefja mál mitt með því að fara aðeins yfir sannfæringu mína varðandi hlutverk þingmanns. Í mínum huga er hlutverk hans að stuðla að því á allan mögulegan hátt að uppbygging þjóðfélagsins haldi stöðugt áfram á eðlilegan máta og í samræmi við þarfir eins og þær eru á hverjum tíma. Það er hlutverk þingmanns að líta til þess að farið sé að lögum og þau sett eftir því sem við á í hverju tilviki fyrir sig. Atvinnulífið, framleiðsla, viðskipti, menntun og grunnþjónusta eru lyklar þeirrar undirstöðu sem öll okkar velferð byggist á.

Í síbreytilegu heimsumhverfi verða menn á heimaslóð að aðlagast því sem er að gerast. Ef tækniframfarir verða tilteinkum við okkur þær, annars drögumst við aftur úr. Ef ástand breytist á einhvern hátt í heiminum verðum við samstundis að bregðast við. Við verðum að taka tillit til annarra og leggja okkar af mörkum til að veröldin sem við lifum í verði sem best.

Þessi aðfaraorð eru eðlileg í ljósi þess sem undirritaður leyfði sér að segja við 1. umr. um það mál sem hér er til umfjöllunar, þ.e. að leggja af Þjóðhagsstofnun. Af því að hæstv. forsrh. ræddi um spurningar þingmanna og svör úr ráðuneytum má ég til með að byrja á því, virðulegur forseti, að taka undir að veitt svör eru almennt mjög skýr og hrein, eindregin svör við því sem spurt er um. Þó hefur undirritaður búið við það að við sérstakri fyrirspurn, einmitt til þess ráðuneytis sem rætt var um áðan, fjmrn., voru svörin a.m.k. loðin og teygjanleg á sínum tíma, að ekki sé meira sagt. Þær vörðuðu Lánasýslu ríkisins og það þurfti að spyrja þrisvar sinnum til að fá niðurstöðu. Ef til vill má segja að spurningarnar hafi ekki verið nógu skýrt fram settar á þeim tíma. Þó töldu hæfir menn sem ég bar mál mitt undir að nægilega skýrt hefði verið spurt í upphafi. Um þetta mál er síðan búið að fjalla töluvert, menn vita sitthvað um það og ég þarf ekki að ræða það frekar. Ég get þó vottað að engin lygi var fram borin. Það var bara ekki allt sagt, ekki fyrr en í þriðju tilraun.

Í Hávamálum segir, með leyfi forseta:

  • Veistu hve rísta skal?
  • Veistu hve ráða skal?
  • Veistu hve fá skal?
  • Veistu hve freista skal?
  • Veistu hve biðja skal?
  • Veistu hve blóta skal?
  • Veistu hve senda skal?
  • Veistu hve sóa skal?
  • Virðulegur forseti. Á undanförnum dögum hef ég mikið velt fyrir mér þeirri aðgerð að leggja niður þessa stofnun sem við, þingmenn, og ekki síst þeir þingmenn sem sitja í hv. fjárln., höfum leitað til. Hvernig snýr þetta mál við okkur og hvert eigum við að snúa okkur framvegis? Ég lýsti því í fyrstu ræðu minni um þetta mál að ég væri ósáttur vegna þess að ég vissi ekki hvað koma skyldi. Ég er ekki enn búinn að fá svör við því. Ég hef aðeins heyrt hugleiðingar. Þess vegna er það að í hvert skipti sem ég hef litið í bók eða hugsað um þessi mál er eitthvað að brjótast um í mér. Við lestur þessa erindis úr Hávamálum fór ég að velta fyrir mér þýðingu þess. Veistu hve rísta skal? Að rísta þýðir að rista valrún. Hún var sett fram fyrir bardaga. Veistu hve ráða skal? Það þýðir að koma fyrir kattarnef. Veistu hve fá skal? Það þýðir að láta líta vel út. Veistu hve freista skal? Það þýðir að ginna. Veistu hve biðja skal? Það þýðir að sleppa við. Veistu hve blóta skal? Það þýðir að færa fórn. Veistu hve senda skal? Það þýðir að láta fram fara. Veistu hve sóa skal? Það þýðir að verja illa.

    Þessar skýringar sem ég fer hér með hafa allar verið að bögglast fyrir mér aftur á bak og áfram. Þegar ég var svo á ferð í dag voru að brjótast um í mér línur úr uppáhaldskvæði eftir stórskáldið Einar Benediktsson, úr kvæðinu ,,Móðir mín``, einkum þessi orð, með leyfi forseta: ,,Ég skildi, að orð er á Íslandi til / um allt, sem er hugsað á jörðu.``

    Kannski er það þannig að við getum fundið skýringar á öllu með því að leita í okkar ástkæra, ylhýra mál.

    Ég gæti lagt, virðulegi forseti, í langtum lengra máli út af þessum orðum í Hávamálum vegna þess að það er hægt að búa um allt Þjóðhagsstofnunarferlið á bak við þau orð sem ég skýrði áðan, meira að segja aftur til 1991 þegar minn flokkur, Alþýðuflokkurinn þáverandi, var með í hugleiðingum um að breyta Þjóðhagsstofnun --- eða leggja hana niður og að annað kæmi í staðinn. Ég sagði, virðulegur forseti, í fyrri ræðu minni að ég væri ekki á móti breytingum. Ég vil hins vegar skýlaust fá að vita hvað kemur í staðinn, minnugur þess að enginn veit hvað átt hefur fyrr en misst hefur. Því segi ég að á sjö ára tímabili mínu í fjárln. hefur mér lærst að það er mismunur á milli upplýsinga, það eru mismunandi upplýsingar sem fjárlaganefndarmenn fá frá mismunandi stofnunum. Og það er rétt, virðulegur forseti, sem hæstv. forsrh. sagði áðan --- ekkert er hafið yfir gagnrýni. Þó er það svo að undanfarin ár höfum við sem sitjum í fjárln. og höfum ekki hagfræðiþekkingu getað reitt okkur á útgefin rit, útgefnar spár og útgefnar þjóðhagsáætlanir sem hæstv. forsrh. hefur lagt fram. Við höfum getað skoðað þetta aftur á bak í tíma og þar með séð að á þessu var að byggja. Því miður verð ég að segja að gögnum sem fulltrúar fjmrn. lögðu fyrir fjárln. sl. haust bar ekki saman við gögn Þjóðhagsstofnunar. Það var nokkur munur þar á. Þetta olli auðvitað miklum heilabrotum og vangaveltum. Það var alveg sama hvað við bárum fyrir okkur í viðræðum við fulltrúa fjmrn., þeir héldu fast við sitt. Við fengum alla þessa sígildu aðila á fundi, við fengum umsögn úr Seðlabanka, frá Ríkisendurskoðun að því leyti sem hægt var að fá hana, og það er auðvitað á mörgu að byggja, og að mörgu að hyggja reyndar, þegar verið er að velta fyrir sér gagnsemi slíkrar stofnunar sem Þjóðhagsstofnun er, og þá ekki bara fyrir Alþingi. Það skiptir þjóðarbúskapinn í heild máli því að Þjóðhagsstofnun gerir þjóðhagsreikninga og í þjóðhagsreikningum er hægt að fara yfir gögn og útreikninga aftur á bak í tíma og skoða hvernig áætlanir hafa staðist miðað við framlagðar tillögur.

    [19:15]

    Eitt skal ég fúslega játa að við fjárlagagerð hafa mál þróast þannig á undanförnum árum, sérstaklega eftir tilkomu fjárreiðulaganna, að þar hafa vinnubrögð allra batnað að mínu mati og orðið til hins betra. Samt sem áður tel ég að stofnun eins og Þjóðhagsstofnun, einhver sambærileg stofnun þurfi að vera til, sem fjallar um landsframleiðslu og þjóðartekjur, sem fjallar um magnvísitölur og landsframleiðslu einstakra þátta. Það þarf að skoða árlega meðalvöxt þjóðarframleiðslu. Það þarf að skoða lands- og þjóðarframleiðslu á verðlagi hvers árs eins og það liggur fyrir. Það þarf að skipta landsframleiðslu upp í þætti. Það þarf að skoða þjóðhagslegan sparnað og samhengi helstu þjóðhagsstærða. Það þarf að skoða hlut atvinnuveganna í landsframleiðslu. Það þarf að skoða magnvísitölur atvinnuvega og landsframleiðslunnar. Það þarf að skoða einkaneysluna. Það þarf að skoða samneysluna. Það þarf að skoða fjármunamyndun og það þarf að skoða marga þætti, fjölmarga þætti. Þetta hefur þessi stofnun, Þjóðhagsstofnun, farið með og fjallað um. Ég gæti, virðulegur forseti, rakið miklu fleiri atriði með tilvitnun í plagg sem er um þjóðhagsreikningana. En ég læt þetta nægja sem dæmi. Ég tel að þessir hlutir séu mjög nauðsynlegir. Ég er ekki að segja að þeir geti ekki farið fram annars staðar. En ég er svo hræddur um að þetta brenglist vegna þess að jafnvel þótt ég treysti ASÍ vel þá eru það hagsmunasamtök sem vinna háð sínum umbjóðendum. Sama má segja um Vinnuveitendasambandið. Sama má segja um BSRB. Sama má segja um bankana sem eru háðir eigendum sínum. Þess vegna setti ég það fram í fyrstu ræðu minni um þetta mál að það yrði að vera klárt hvað ætti að koma í staðinn.

    Ágætir félagar mínir úr Samfylkingunni hafa lagt fram hugmyndir um að e.t.v. mætti setja upp hagdeild við þingið. Til hvers? Jú, til þess að gefa ráð í einstökum tilvikum sem varða efnahagsmál. Slík deild gæti aldrei fjallað nema mjög takmarkað um þær stærðir og atriði sem ég rakti hér áðan.

    Við þurfum að vita staðreyndir um einkaneyslu á hverju ári. Við þurfum að vita staðreyndir um samneyslu hins opinbera. Við þurfum að vita magnvísitölu fjármunamyndunar á hverju tímabili fyrir sig, hvort sem það eru þrjú ár, fjögur ár eða tvö ár eða hvernig við hugsum þetta. Þetta eru grunnatriði sem ég fékk ekki svör við í fyrstu ræðu minni, virðulegur forseti, hvernig menn ætluðu að leysa. Talað er um að til séu greiningarstofnanir við hin ýmsu fyrirtæki, t.d. bankana. Það er reynar vísað til háskólans og vel má vera að háskólinn geti sett upp svið ef honum yrðu skaffaðir fjármunir til þess. Ég vonast til þess að það fólk sem vinnur hjá Þjóðhagsstofnun fái störf á sambærilegu sviði og það hefur verið að vinna við því að eins og ég skil þá hluti sem þar hafa verið unnir þá eru það leiðbeiningar til atvinnulífsins, til ríkisstjórnar, til stjórnarandstöðu og nær því að segja til hvers einasta aðila í samfélaginu sem er háður efnahagsaðgerðum, og þeim eru allir háðir.

    Virðulegur forseti. Ég held á plaggi frá því í október 2000 sem fjallar um stjórnkerfi fiskveiða og byggðaþróun. Þetta er greinargerð unnin fyrir nefnd um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Virðulegur forseti. Hverjar eru helstu niðurstöður? Helstu niðurstöður eru, með leyfi forseta:

    ,,Hlutdeild samdráttarstaðanna í veiðiheimildum í þorski hefur minnkað verulega á undanförnum árum en hlutdeild vaxtarstaðanna hefur aukist á sama tíma.``

    Virðulegur forseti. Af því þetta er frekar stirfið mál ætla ég að reyna að útskýra hvað þetta þýðir. Á litlu stöðunum fyrir vestan og litlu stöðunum fyrir austan sem hafa misst veiðiheimildirnar hefur fólkinu fækkað en á stóru stöðunum sem hafa náð til sín veiðiheimildunum hefur fólkinu fjölgað. Þetta er staðreynd. Þetta er óþægileg staðreynd sem segir að fiskveiðistjórnarkerfið sem við höfum búið við er gallað.

    Í öðru lagi segir, með leyfi virðulegs forseta:

    ,,Samband milli úthlutaðra og raunverulegra veiðiheimilda er margslungið, m.a. vegna þess hversu algengt er að útgerðarmenn breyti þeim með leigu og flutningi milli skipa sem geta verið gerð út frá mismunandi stöðum.``

    Hvað er Þjóðhagsstofnun að segja okkur með þessum orðum? Ég vil skilja þetta þannig að galli sé á því fiskveiðistjórnarkerfi sem við búum við og að hann þurfi að laga. Þetta er greinargerð og skýrsla um stjórnkerfi fiskveiða og byggðaþróun sem er gerð fyrir nefnd um endurskoðun laga um stjórn fiskveiða. Enn segir, með leyfi forseta:

    ,,Ráðstöfun afla hefur breyst verulega á undanförnum árum. Á mesta samdráttartímanum lagðist útflutningur á óunnum afla nær alveg af. Útgerð verksmiðjuskipa hefur breytt ráðstöfun afla en á þeim stöðum sem hér eru til athugunar er sú breyting ekki umtalsverð. Mesta breytingin er á því hversu miklu meiri afli fer til vinnslu utan heimahafnar skips.``

    Þetta þarf ekki að skýra, virðulegur forseti. Þetta eru hlutir sem fylgja því stjórnkerfi fiskveiða sem við búum við.

    Virðulegur forseti. Niðurstaða mín bara eftir skoðun á fyrstu síðu, þ.e. niðurstöðum frá Þjóðhagsstofnun, er að ég skil þetta sem svo að því kerfi sem við búum við þurfi að breyta. Hér er um að ræða ráðgjöf sem mér sýnist að fari í andstöðu við stefnu og vilja hæstv. ríkisstjórnar. Með leyfi forseta, ætla ég að vitna í síðasta punktinn um helstu niðurstöður Þjóðhagsstofnunar. Þar segir:

    ,,Störfum í sjávarútvegi hefur fækkað á samdráttarstöðunum en fjölgað á vaxtarstöðunum. Samdrátturinn í sjávarútvegi virðist þó vera hluti af almennum samdrætti á samdráttarstöðunum, enda er fækkun sjávarútvegsstarfa 38% af heildarfækkun starfa. Á vaxtarstöðunum hefur störfum í öðrum greinum ekki fjölgað þótt sjávarútvegurinn hafi eflst. Skýringa er að einhverju leyti að leita í því að aðrar framleiðsluatvinnugreinar hafa dregist saman.``

    Í þessari skýrslu er síðan farið yfir þá 20 útgerðarstaði þar sem íbúum fækkaði hlutfallslega mest á árunum 1989--1999 og það í réttu hlutfalli við það sem fiskveiðiheimildir þessara staða hafa dregist saman. Hér segir:

    ,,Vaxtarstaðir: Tíu útgerðarstaðir þar sem íbúum fjölgaði hlutfallslega mest 1989--1999.``

    Það er skýrt og klárt að þarna ræður mestu það stjórnkerfi sem við búum við. En þetta er ráðgjöf. Þetta er ábending frá þessari stofnun. Þessi ábending er ábyggilega óþægileg fyrir þá aðila sem eru ósammála eða þá sem vilja halda í það kerfi sem við höfum búið við en hefur leitt til þeirrar byggðaþróunar sem er staðreynd, þ.e. að fólki fækkar á litlu stöðunum úti á landi og fólki fjölgar þar sem aflaheimildirnar eru mestar og stóru útgerðarfyrirtækin eru, þ.e. á þéttbýlisstöðunum.

    Þjóðhagsstofnun hefur leitt til margs góðs, t.d. hafa ráðuneytin, m.a. samgrn., fengið yfirlit um þróun og umfang ferðaþjónustu á Íslandi og þar er margt að sjá. En þar ber niðurstöður, virðulegur forseti, að sama brunni og ég var að nefna áðan varðandi fiskveiðar og byggðaþróun. Þar hefur nefnilega líka dregist saman.

    Þjóðhagsáætluninni fyrir árið 2002 var fylgt úr hlaði af hálfu hæstv. forsrh. á sínum tíma. Þetta er mikið plagg upp á ...

    (Forseti (GÁS): Forseti biður hv. þm. velvirðingar, en vill spyrja hvort nokkur möguleiki sé á því að hann ljúki ræðu sinni fyrir klukkan hálfátta, þ.e. eftir tvær mínútur.)

    Virðulegur forseti. Enn á ég eftir nokkurt efni og vildi gjarnan koma því frá mér. Ég reikna með að það gæti numið 20 mínútum eða svo.

    (Forseti (GÁS): Þá vill forseti fara þess á leit við hv. þm. að hann geri hlé á ræðu sinni því nú fara fram nefndafundir þannig að óhjákvæmilegt er annað en að gera hlé á umræðum í þinginu. Hentar hv. þm. að gera hlé á ræðu sinni núna?)

    Virðulegur forseti. Það getur alveg gengið. Ég var rétt að koma að þjóðhagsáætlun fyrir árið 2002 þannig að ég get bara hafið mitt mál á því.