Þjóðhagsstofnun o.fl.

Fimmtudaginn 18. apríl 2002, kl. 20:58:08 (7817)

2002-04-18 20:58:08# 127. lþ. 122.1 fundur 709. mál: #A Þjóðhagsstofnun o.fl.# frv. 51/2002, forsrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 122. fundur, 127. lþ.

[20:58]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég fæ ekki séð að sú skýrsla sem hv. þm. nefndi sé óþægileg á nokkurn hátt. Það er út af fyrir sig vitað að núverandi fiskveiðistjórnarkerfi felur í sér hvatningu til hagræðingar af margvíslegu tagi og vitað er að sú hagræðing getur leitt til þess að það þrengist um á ýmsum stöðum. Þetta er vitað og þekkt, meira að segja allir þingmenn vita þetta og þurfa ekki einu sinni þá ágætisstofnun Þjóðhagsstofnun til að segja okkur það. Þetta þekkjum við. Af þeim ástæðum hafa ýmsir þingmenn verið uggandi um kerfið og fundið sitthvað að því, m.a. sá ágæti þingmaður sem gengur í salinn núna, þannig að það er ekki neitt sem menn þurfa að óttast að fá gögn af þessu tagi. Svona hlutir þurfa að liggja fyrir og er sjálfsagt að liggi fyrir þegar menn eru að vega og meta kerfi af þessu tagi. Síst mundi ég harma það að slíkar skýrslur og gögn lægju fyrir því að við tölum um hagræðingu og þess háttar og það er út af fyrir sig jákvætt oftast nær í flestum tilfellum. En við vitum líka um hagræðingu af slíku tagi ekki bara í fiskveiðistjórnarkerfinu, heldur í verslun og viðskiptum. Við sjáum hvað er að gerast í lyfjafyrirtækjunum. Áður voru 30--40 apótekarar og mönnum fannst það vera hálfgerð einokun. Nú eru lyfjafyrirtækin komin á hendur tveggja aðila. Mönnum fannst 30--40 apótek vera allt of lítið. Þetta er komið niður í hendur tveggja aðila. Sjálfsagt er hagræðing í því en það hefur sjálfsagt bitnað á einhverjum og það getur aldrei verið stefna nokkurs flokks, nokkurrar ríkisstjórnar eða nokkurs aðila að óska eftir því að slíkum skýrslum sé stungið undir stól af því að umræðan geti orðið erfiðari. Umræðan er bara erfið ef upplýsingarnar liggja ekki fyrir þannig að ég fagna öllum upplýsingum hvaða málstað sem þær kunna að styðja á hverjum tíma.